Datt ekki í hug að hún yrði lögð inn

Lilja Guðmundsdóttir þurfti að leggjast inn á spítala vegna Covid-19 …
Lilja Guðmundsdóttir þurfti að leggjast inn á spítala vegna Covid-19 þrátt fyrir að vera ung og heilsuhraust. Samsett mynd

24 ára gömul kona sem starfar í leikskólanum Jörfa meðfram háskólanámi þurfti að leggjast inn á spítala vegna Covid-19. Hún segist ósátt með það hversu auðvelt það hafi verið að brjóta sóttkví, en hópsmitið í leikskólanum kom upp vegna sóttkvíarbrots einstaklings sem kom hingað til lands. Hún segir hertar aðgerðir á landamærum skref í rétta átt og telur mikilvægt að fólk sé meðvitað um að ungt hraust fólk geti veikst alvarlega af Covid-19.

Konan, Lilja Guðmundsdóttir, er einmitt ekki með neina undirliggjandi sjúkdóma, reykir ekki og var heilsuhraust áður en hún smitaðist.

„Ég fór samt inn á spítala. Mér datt aldrei í hug að það myndi gerast,“ segir Lilja.

Alls hafa 107 kórónuveirusmit verið tengd við hópsmitið í leikskólanum Jörfa. Lilja segir virkilega leiðinlegt og sorglegt að mörg börn hafi smitast. Sjálf fann hún strax fyrir mikilli þreytu eftir að hún var send í sóttkví 16. apríl síðastliðinn. Daginn eftir var svo staðfest að hún væri smituð. Um viku síðar, eða síðastliðinn föstudag, var hún lögð inn á Borgarspítala.

Góð þjónusta og gott fólk á A7

„Ég var komin með svo háan hita að þau báðu mig að koma inn. Hitinn lækkaði ekkert, þrátt fyrir að ég væri búin með heilt box af hitalækkandi,“ segir Lilja. Þá hafði hóstinn hjá henni líka aukist og var hún send í myndatöku á lungum.

„Þá sáu þau að ég var komin með víruslungnabólgu og lögðu mig því inn. Það var rosalega vel hugsað um mig. Það er virkilega góð þjónusta og gott fólk sem vinnur þarna á [deild] A7,“ segir Lilja sem kann starfsfólkinu, sem enn hringir í hana daglega, bestu þakkir.

Ósátt með hversu auðvelt er að brjóta sóttkví

Lilja var sett á steralyf og veirulyf, þá fékk hún vökva í æð og súrefni þegar súrefnismettunin í blóðinu var orðin of lág.

Nú er hópsmitið rakið til brots á sóttkví, hvað finnst þér um að brot einhvers annars hafi valdið því að þú smitaðist og varðst svo alvarlega veik?

„Ég er aðallega ósátt við hvað það er auðvelt að brjóta sóttkví og að þeir stjórnmálaflokkar sem taka þetta ekki alvarlega hljóta að sjá að það verður að vera hörð gæsla á landamærum því flest stóru smitin byrjuðu með smiti á landamærum, ef ég skil þetta rétt.“

Hertar aðgerðir skref í rétta átt

Í dag tóku nýjar reglur gildi á landamærum sem gera það að verkum að fólk sem kemur frá skilgreindum áhættusvæðum þarf að dvelja á sóttkvíarhóteli í sinni sóttkví. Spurð hvað henni finnist um þær aðgerðir, í ljósi hennar reynslu, segir Lilja:

„Það er klárlega skref í rétta átt. Sérstaklega þegar við vitum að þessar aðgerðir virka að nota þær.“

Lilja klárar sína einangrun 2. maí. Hún er ekki lengur með hita en er öll orkuminni en áður. Lilja minnir fólk á að faraldurinn sé ekki yfirstaðinn.

„Ég held að flestir taki þetta alvarlega. Það er stutt eftir. Bóluefnið er að koma en þetta er ekki búið. Við viljum bara hafa veirufrítt land hérna í sumar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert