Fleiri smit greind í Þorlákshöfn

Grunnskólinn Þorlákshöfn verður lokaður í dag.
Grunnskólinn Þorlákshöfn verður lokaður í dag. Ljósmynd/Ölfus

Í gærkvöldi komu í ljós fleiri smit í Þorlákshöfn og verður því grunnskólinn lokaður í dag. Þetta kemur fram í færslu Elliða Vignissonar, bæjarstjóra í Ölfusi á Facebook í gærkvöldi.

Þar kemur fram að fyrir liggi að nokkrir foreldrar barna við skólann eru með staðfest smit en ekkert staðfest smit er meðal nemenda við skólann. Aftur á móti sé ljóst að a.m.k. tveir nemendur hafa verið verulega berskjaldaðir fyrir smiti og komnir með einkenni. Þeir fara í sýnatöku í dag.

Fjögur smit greindust meðal starfsmanna fiskvinnslufyrirtækisins Ramma í Þorlákshöfn á sunnudag. 

Í samráði við rakningateymið hefur því verið ákveðið að loka grunnskólanum í dag og þjónusta leikskóla verður skert. Elliði segir að ekki hafi verið talin ástæða til að loka leikskólanum en sveitarfélagið vilji ganga lengra heldur en rakningarteymið hafi lagt til og beini því til foreldra sem það geta að halda börnum sínum heima á morgun, á meðan málin eru að skýrast, segir Elliði.

Í dag verður skoðað hvort ástæða er til að skima einhverja hópa í skólanum, leikskólanum og eftir atvikum víðtækara. „Ég ítreka að enn er enginn nemandi, hvorki í grunn- né leikskóla með staðfest smit. Þetta eru því varúðarráðstafanir og fyrst og fremst verið að biðla til foreldra, og íbúa almennt, um samfélagslega ábyrgð og samstöðu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka