Tilkynningum sem bárust til barnaverndarnefnda vegna vanrækslu fjölgaði verulega á árinu sem liðið er frá því að kórónuveirufaraldurinn hófst eða um 19,2% frá 1. mars í fyrra til loka febrúarmánaðar sl.
Þetta kemur fram í nýrri umfjöllun Barnaverndarstofu, sem um er fjallað í Morgunblaðinu íi dag. „Slíkt hið sama á við um tilkynningar vegna ofbeldis. Frá 1. mars 2020 hafa borist óvenju margar tilkynningar vegna ofbeldis á mánuði. Því til stuðnings má nefna að meðalfjöldi mánaðarlegra tilkynninga vegna ofbeldis á tímabilinu 1. mars 2020 til 28. febrúar 2021 var 315 tilkynningar, sem er um eða yfir hæsta gildi áranna á undan.
Því er ljóst að talsverð aukning á tilkynningum vegna ofbeldis og vanrækslu gagnvart börnum hefur orðið síðan faraldur hófst,“ segir í frétt á vefsíðu Barnaverndarstofu.
Barnaverndarstofa hefur nú unnið greiningu á tilkynningum til barnaverndarnefnda á tímabili faraldursins til samanburðar við árin á undan. Þar kemur meðal annars fram að tilkynningum vegna ófæddra barna hefur fjölgað, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.