Stundum gerast kraftaverkin og á það sannarlega við um kisuna Táslu. Eftir að hafa verið í tólf ár á vergangi snýr hún aftur til síns heima en hennar hefur verið saknað síðan árið 2009.
Tásla hefur lifað tímana tvenna. Þegar hún bjó hjá sínum fyrsta eiganda fór hún oft á flakk í nokkra daga en einn daginn höfðu óvenjumargir dagar liðið síðan hún lét sjá sig á heimaslóðum og fór þá eigandinn að hafa áhyggjur. Var Tásla þá fjögurra ára.
Síðan þá hefur hún átt eitt heimili svo vitað sé, í bryggjuhverfinu. Ekki leið á löngu þar til hún strauk þaðan og hreiðraði um sig í Árbænum.
Eftir að hafa leitað í heilt ár gaf eigandinn upp vonina, það var ekki fyrr en um daginn sem hann rakst á kunnuglegt andlit á Instagram-síðu Villikatta og gat tekið gleði sína á ný. Þarna glitti í kisu með hálfhvítt andlit með brúnum bletti á hægri hlið og ekki var um að villast að þarna væri Tásla á ferð, gömul og reynslunni ríkari. Hún hafði reyndar fengið nafnið Mía.
Tásla er nú orðin sextán ára heldri dama, feimin en ráðagóð. Fær hún að njóta efri áranna í faðmi eiganda síns sem er nú himinlifandi að fá Tásluna sína aftur heim, ellefu árum síðar.
Villikettir fá oft ábendingar um ketti á vergangi líkt og í tilfelli Táslu. Barst tilkynning um kisu í Árbænum sem væri líklegast á vergangi en þó vel farin og augljóst að hún átti hauka í horni sem sáu henni fyrir mat.
„Það er svo mikil meðvitund meðal Íslendinga í sambandi við dýravernd og kisur eiga marga vini hér. Við erum með mörg þúsund fylgjendur á Instagram, Snapchat og Facebook til samans,“ segir Arndís Björg Sigurgeirsdóttir formaður Villikatta.
Arndís segir algengt að kisur sem hafi verið týndar í tvö til þrjú ár komist í leitirnar og fái að snúa til fyrri eiganda en einu sinni hefur það gerst að kisa sneri heim eftir sex til átta ára fjarveru. Arndís þekkir engin dæmi um að kisa hafi komist til fyrri eiganda eftir að hafa verið jafnlengi á vergangi og Tásla og er því sannarlega um einstakt dæmi að ræða.
Villikettir eru félagasamtök sem hafa að markmiði að koma villiköttum til hjálpar með skipulegum aðgerðum en þar vegur þyngst að ná dýrum, gelda þau og framkvæma ófrjósemisaðgerðir. Hægt er að fylgja þeim undir notendanafninu @villikettir á Instagram, Facebook og Snapchat.