Jóhann Hjartarson efstur á Íslandsmótinu

Jóhann Hjartarsson (til vinstri) leiðir mótið með fjóra og hálfan …
Jóhann Hjartarsson (til vinstri) leiðir mótið með fjóra og hálfan vinning. Ljósmynd/Skáksamband Íslands

Jóhann Hjartarson stórmeistari er efstur á Íslandsmótinu í skák eftir að hafa unnið Guðmund Kjartansson, ríkjandi Íslandsmeistara, í sjöttu umferð mótsins.

Jóhann er með fjóra og hálfan vinning en Hjörvar Steinn Grétarsson fylgir fast á eftir með fjóra vinninga en fimm skákmenn eru í þriðja sæti með þrjá og hálfan vinning.

Ingvar Þór Jóhannsson, liðsstjóri íslenska landsliðsins, leit yfir skákir dagsins í pistli á skak.is en þar er hægt að renna yfir viðureignirnar.

Gegn Jóhanni fékk Guðmundur betra tafl um stund en fór í röng uppskipti svo Jóhann gat nýtt sér veikleika í svörtu kóngsstöðunni. Fór svo að Jóhann vann og er einn efstur í mótinu. 

Þótt leikar séu farnir að skýrast er enn nóg eftir af mótinu og hefst sjöunda umferð á morgun klukkan þrjú. Þar mætir Jóhann Hjartarson Sigurbirni Björnssyni með svörtu og Hjörvar Steinn Grétarsson fær hvítt á Alexander Oliver Mai. Beinar útsendingar má nálgast á skak.is.

Viðureignir morgundagsins.
Viðureignir morgundagsins. Skjáskot/Chess Results
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert