Mögulega muni bólusetningar ganga enn hraðar

„Við erum að boða bjartari tíma. Við teljum ástæðu til …
„Við erum að boða bjartari tíma. Við teljum ástæðu til þess að stíga inn í þetta sumar með bros á vör,“ segir Svandís. mbl.is/Kristinn Magnússon

Íslendingar geta jafnvel verið bjartsýnir á að bólusetningar gegn Covid-19 muni ganga hraðar hér innanlands en áður var gert ráð fyrir, að sögn heilbrigðisráðherra. Er þetta helst vegna tilkomu bóluefnis Janssen en að auki eru flestir bóluefnaframleiðendur að auka við framleiðslu sína. Eins og áður hefur verið greint frá er stefnt á að fyrstu bólusetningu fólks á aldrinum 60 til 69 ára ljúki í vikunni og eru þá þeir sem eru 50 til 59 ára næstir í röðinni.

Eins og mbl.is greindi frá í morgun hafa stjórnvöld kynnt afléttingaráætlun í takti við útbreiddari bólusetningu. Miðað við hana ættu 20 til 200 manna samkomutakmörk að gilda í byrjun maímánaðar og öllum aðgerðum að vera aflétt í síðari hluta júnímánaðar en þá hafa væntanlega 75% fullorðinna fengið bólusetningu.

„Við erum að boða bjartari tíma. Við teljum ástæðu til þess að stíga inn í þetta sumar með bros á vör,“ segir Svandís um það.

Er nóg að 75% fullorðinna séu bólusett þegar öllu verður aflétt?

„Við teljum svo vera miðað við þær forsendur sem við höfum núna. Við vitum samt sem áður að við komum til með að þurfa að vera vakandi fyrir hópamyndunum, því að nota spritt, passa okkur vel og gæta sérstaklega að fólki sem er í viðkvæmri stöðu,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra í samtali við mbl.is.

Ekki vitað hvort börn fái bólusetningu

Þegar talað er um fullorðna er átt við fólk sem er fætt árið 2005 eða fyrir það ár. Svandís segir enn ekki vitað hvort börnum verði boðin bólusetning.

 „Við byggjum í raun og veru bara á markaðsleyfinu sem er fyrir 16 ára og eldri fyrir þessi bóluefni. Til þess að breyta því þyrfti að endurmeta markaðsleyfið á grundvelli þeirra rannsókna sem eru að fara fram núna. Þannig að við erum ekki með neitt nýtt í höndunum til þess að taka nýjar ákvarðanir um það,“ segir Svandís um það og bætir því við að bólusetning barna verði tekin til skoðunar ef markaðsleyfi sem snertir þau verður gefið út.  

Gera ráð fyrir ákveðnum sveigjanleika

Það tekur bóluefnið tvær til þrjár vikur að öðlast fulla virkni hjá bólusettum. Jóhanna Jakobsdóttir, lektor í líftölfræði við Háskóla Íslands, benti á í síðustu viku að stjórnvöld þyrftu að gera ráð fyrir þessu í afléttingaráætlun sinni. Spurð um það segir Svandís:

 „Það er ástæðan fyrir því að tímaramminn í þessari áætlun er gefinn svolítið rúmur, við þurfum að gera ráð fyrir því að það verði ákveðinn sveigjanleiki. En þær upplýsingar sem við höfum verið að fá undanfarna daga og vikur hafa verið svona heldur til þess að flýta áætluninni frekar en hitt,“ segir Svandís.

Hún bendir á að bóluefnaskammtar af bóluefni AstraZeneca sem Norðmenn lánuðu Íslendingum séu komnir til landsins og þá verði bóluefni Janssen brátt tekið í notkun.

„Það hefur ekki verið með inni í áætluninni hingað til þannig að þetta er allt svona frekar til bóta.“

Megum við vera enn bjartsýnni en bólusetningardagatalið gefur tilefni til?

„Já, já. Við getum alveg verið það en við gerum ráð fyrir því að uppfæra bólusetningardagatalið einu sinni í viku þannig að það endurspegli það á hvaða leið við erum í samræmi við nýjustu upplýsingar.“

Breska afbrigðið herjar á 50 til 60 ára

Eins og áður segir er stefnt á að fyrstu bólusetningu fólks á aldrinum 60 til 69 ára ljúki í vikunni og eru þá þeir sem eru 50 til 59 ára næstir í röðinni. Ákvörðun um það hvort áfram verði farið niður aldursröð hefur ekki verið tekin.

 „Miðað við þá stöðu sem er uppi með breska afbrigðið þá segir sóttvarnalæknir að þetta aldursbil frá 50 til 60 sé næsta aldursbil sem við munum fara í vegna þess að breska afbrigðið herjar töluvert á þann aldur, 50 til 60 ára. Svo er náttúrlega tekin ákvörðun um þetta stig af stigi. Þessi hópur sem er sá tíundi í forgangsröðuninni er í raun allir undir 60 ára aldri sem ekki hafa verið snertir áður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert