Mótefnið fannst rúmu ári síðar

„Allt í þágu vísindanna,“ segir Snærós spurð hvers vegna hún …
„Allt í þágu vísindanna,“ segir Snærós spurð hvers vegna hún hafi haldið áfram að mæta í mótefnamælingar þegar eftir því var óskað. Samsett mynd/Kristinn Magnússon/Magnús Elvar Jónsson

Snærós Vaka Magnúsdóttir hafði í tvígang farið í mótefnamælingu vegna Covid-19 á einu ári og í bæði skiptin fengið neikvæða svörun. Nú, ári eftir að talið er að hún hafi smitast, mælist hún með mótefni gegn kórónuveirunni. Snærós segir að henni sé létt vegna niðurstöðunnar.

Baksaga málsins er sú að kærasti Snærósar greindist smitaður af Covid-19 í mars í fyrra. Þau voru saman í einangrun en Snærós fann ekki fyrir einkennum.

„Ég varð aldrei veik. Þetta var á þeim tíma sem skortur var á pinnum í landinu þannig að ég fékk aldrei að fara í Covid-próf vegna pinnaskorts,“ segir Snærós sem gerði þó alltaf ráð fyrir því að hún hefði smitast af Covid-19.

38 daga einangrun og sóttkví

Hún var samtals í 38 daga í einangrun og sóttkví á sínum tíma þar sem smit kom upp nærri parinu og þau ákváðu að einangra sig strax. Nokkrum dögum síðar fór kærasti Snærósar í sýnatöku og reyndist smitaður. Þá hófst tveggja vikna einangrun og þegar henni lauk þurfti Snærós að fara í tveggja vikna sóttkví þar sem hún hafði umgengist smitaðan einstakling.

Í aprílmánuði fór Snærós í mótefnamælingu. Hún fékk neikvæða svörun úr þeirri mælingu og var mjög hissa yfir því. Í september fór hún aftur í mótefnamælingu og þá var sömu sögu að segja, ekkert mótefni mældist. Í þessum mánuði fór hún aftur og fékk niðurstöður í dag. Og viti menn: Snærós mældist með mótefni. Hún segir að það hafi verið mikill léttir.

„Það var alveg mjög vont að hafa það hangandi yfir hausnum á mér að ég gæti þurft að fara aftur í einangrun eftir 38 daga af einangrun á sínum tíma,“ segir Snærós.

„Væntanlega er núna auðveldara fyrir mig að ferðast. Um leið og ég fékk niðurstöðurnar fékk ég líka mótefnavottorðið frá Þórólfi.“

Hvers vegna hélstu áfram að fara í mótefnamælingar?

„Allt í þágu vísindanna...“

Snærós hefur ekki fengið upplýsingar um það hvers vegna hún greindist með mótefni svo seint, ári eftir að talið er að hún hafi smitast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert