Óviðunandi að þola ekki álagið

Frístundanámskeiðin eru vinsæl. Mynd úr safni.
Frístundanámskeiðin eru vinsæl. Mynd úr safni. mbl.is/Styrmir Kári

Töluverðar truflanir og tafir urðu á innskráningu þegar foreldrar og forráðamenn reyndu að skrá börn sín rafrænt á sumarnámskeið á vegum borginnar í morgun. Framkvæmdastjóri Stafræns Íslands segir það orsakast af miklu álagi sem varð á innskráningarþjónustu island.is vegna fjölda þeirra foreldra sem reyndu að skrá börn sín á sama tíma.

Innskráning hófst klukkan tíu í morgun og hökti kerfið eitthvað fram yfir hádegi. Það hafði einnig þau áhrif að vefurinn heilsuvera.is lá niðri í stutta stund.

Foreldrar létu óánægju sína í ljós á Twitter og einnig á síðum frístundaheimilda borgarinnar. Bent var á að það væri einfaldlega óviðunandi að lenda með barn á biðlista út af tæknilegum vandræðum sem ættu sér stað nánast árlega.

Innskráningarþjónusta komin til ára sinna

Andri Heiðar Kristinsson, framkvæmdastjóri Stafræns Íslands, segir vefþjóna hjá tæknibirgi ekki ráða við álagið, enda sé núverandi innskráningarþjónusta komin til ára sinna.

Við hjá Stafrænu Íslandi höfum nýlokið við þróun á nýrri innskráningarþjónustu sem nú er á lokametrunum í prófunum sem mun leysa núverandi þjónustu af hólmi og verður hún innleidd í áföngum á þessu ári. Nýja innskráningarþjónustan er hönnuð með öryggi og álagsprófanir að leiðarljósi og ættu sambærileg vandamál og upp komu í morgun að verða úr sögunni þegar innleiðingunni verður lokið, enda óviðunandi að slík grunnþjónusta þoli ekki fyrirsjáanlega álagstoppa eins og gerðist í morgun,“ segir í svari Andra Heiðars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert