Slökkvistarfi er lokið Borgarnesi og segir Bjarni Þorsteinsson, slökkviliðsstjóri Borgarbyggðar, tjónið óverulegt. Slökkviliðið hafi mjög fljótt náð tökum á eldinum og eins tókst að verja húsið að innan við reykskemmdum. Aðeins er um lítils háttar vatnstjón að ræða.
Eldur kom upp í þaki stöðvar N1 í Borgarnesi um klukkan 11 í morgun. Allt tiltækt lið slökkviliðs Borgarbyggðar kom fljótt á vettvang en að sögn Bjarna var um stóra úthringingu að ræða, það er slökkviliðið í Reykholti, Bifröst og Hvanneyri var kallað út.
Einhverjar skemmdir urðu á þaki hússins þar sem slökkviliðið þurfti að saga sig í gegnum þakið auk þess sem eldur komst í hluta þess. Verið var að vinna við að laga þakið þegar eldur komst í pappa með þessum afleiðingum.