Smit í grunnskólanum í Þorlákshöfn

Frá Þorlákshöfn.
Frá Þorlákshöfn. mbl.is/Þorgeir Baldursson

„Staðan er verri í dag en hún var í gær. Smitin hafa breiðst út og þar með talið í grunnskólann,“ seg­ir Elliði Vign­is­son, bæj­ar­stjóri Ölfuss, í samtali við mbl.is. 

Gripið heftir verið til harðra aðgerða í bænum til að hefta útbreiðsluna. Farið verður í skimanir og starf sem snýr að börnum verður takmarkað enn frekar að sögn Elliða. 

„Ég veit það eftir reynslu dagsins að við erum með gott veganesti í því að íbúar eru tilbúnir í að gera sitt til að koma í veg fyrir útbreiðslu.“

Reyna að loka ekki leikskólanum 

Sem dæmi nefnir Elliði að reynt sé að loka ekki leikskólanum vegna þess hve mikilvægur hann er framlínustarfsfólki. Biðlað hafi verið til fólks um að hafa börnin sín heima nema brýna nauðsyn bæri til. 

„Það eru 111 börn í leikskólanum, það voru ekki nema sex sem voru á leikskólanum í dag,“ segir Elliði. Hann segir því foreldra bæjarins hafa brugðist vel við beiðni um að hafa börnin heima: „Þannig er okkur gert kleift að þjónusta börn framlínustarfsfólks.“

Í gær varð ljóst að smitum hefur fjölgað í Þorlákshöfn, eftir að upp kom hópsmit á vinnustað þar á bæ. Tekin var ákvörðun um að loka grunnskólanum, sem var lokaður í dag. 

Samfélagið í fyrsta gír 

„Við erum að reyna að stuðla að því að samfélagið fari í fyrsta gír. Við hægjum á og hvetjum fólk til að halda sig sem mest heima. Lokum bókasafni, drögum úr öllu íþróttastarfi og gírum okkur niður. Þannig gerum við okkar til að koma í veg fyrir útbreiðslu,“ segir Elliði. 

Elliði greinir frá stöðunni á facebooksíðu sinni hér:

 Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert