Smit utan sóttkvíar rakin til Þorlákshafnar

Frá Þorlákshöfn þar sem grunnskólanum er lokað í dag vegna …
Frá Þorlákshöfn þar sem grunnskólanum er lokað í dag vegna smita. mbl.is/Þorgeir Baldursson

„Þetta eru svolítið háar tölur en það er gott að flestir eru í sóttkví,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Alls greindust 16 með kórónuveiruna innanlands í gær og voru 13 þeirra í sóttkví við greiningu.

Alls var 1.891 ein­stak­ling­ur skimaður inn­an­lands í gær og 419 á landa­mær­un­um.

Þórólfur segir að þrátt fyrir að betra sé að fólk sé í sóttkví í greiningu geti það vissulega veikst alvarlega. 

„Þessir þrír sem greinast utan sóttkvíar hafa náin tengsl við fyrri hópsmit,“ segir Þórólfur en smitin utan sóttkvíar má rekja til smits í Þorlákshöfn.

Hann kveðst ekki hafa nákvæmlega á hreinu hversu mörg hinna 13 smita í sóttkví tengist Þorlákshöfn en segir fólkið í sóttkví tengjast Suðurlandi og hópsmiti á höfuðborgarsvæðinu.

Spurður um uppruna smita sem komu upp í Þorlákshöfn á sunnudag segir Þórólfur að þau tengist öðru þekktu landamærasmiti sem tengist sóttkvíarbroti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert