„Það veit það enginn, því það hefur ekkert verið talað við okkur,“ segir Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju, stéttafélags á Akureyri, í samtali við mbl.is um kjör nýrra starfsmanna sem ráðnir verða á hjúkrunarheimili bæjarins eftir að nýr rekstraraðili tekur við eftir mánaðamót.
Björn kveðst ekki sáttur við ummæli bæjarstjóra Akureyrarbæjar, sem sagði í viðtali við N4 að rekstrarkostnaður myndi lækka við nýjan rekstraraðila, vegna þess að kjarasamningar þeirra væru hagstæðari.
„Þetta er stærsta einkavæðingin í lengri tíma, það eru öldrunarheimilin hér á Akureyri,“ segir Björn.
„Það er gefið í skyn að þarna sé nýr kjarasamningur og þá lækki launin og þá sé hægt að reka þetta. Eins og það sé hægt að reka þetta af því að launin eigi að lækka. Mér finnst ekki mikill metnaður í því,“ segir Björn.
Heilsuvernd hjúkrunarheimili ehf. mun taka við rekstri hjúkrunarheimilanna á Akureyri um næstu mánaðamót, laugardaginn 1. maí, verkalýðsdaginn sjálfan.
„Við vonum auðvitað það besta, en við vitum ekki hvað nýr rekstraraðili er að hugsa. Við erum ekki að segja að þeir ætli að lækka laun, en við vitum það ekki.“
Björn segir lækkanir ekki sjálfgefnar.
Samningar sem til að mynda Starfsgreinasambandið gerir við Samband íslenskra sveitarfélaga um kjör starfsfólks hjúkrunarheimila er í gildi svokallað starfsmat sem hækkar grunnlaun.
Nýir aðilar munu taka við samningum þeirra sem þegar eru í vinnu. Björn segir þá sem fyrir eru muni halda öllum sínum réttindum.
Hann ítrekar að ekki hafa verið gerðir neinir samningar við stéttarfélagið. „Hvort að það sé vilji fyrir að láta sveitarfélagskjarasamningana gilda eða semja um nýja samninga.“
„Þú getur rétt ímyndað þér það hvernig sé að vinna hlið við hlið. Annar kannski á sveitarfélagssamningi og hinn kannski á einhverjum allt öðrum samningi. Það getur munað tugum þúsunda í dagvinnulaun, aðrar desemberuppbætur og fleira. Ímyndaðu þér móralinn á vinnustaðnum,“ segir Björn.
Björn tjáði sig um málið á Facebook-síðu sinni í dag: