„Ég hélt að systir mín væri að grínast í mér þegar hún sendi mér skjámynd af þessu,“ segir Lilja Margrét Riedel, sem datt í lukkupottinn á dögunum og vann þyrluflugferð með Ómari Ragnarssyni að gosinu í Geldingadölum í facebookleik Efnisveitunnar.
Þetta var þó ekkert grín og mbl.is fékk að fljóta með í flugið þar sem Ómar fór að sjálfsögðu á kostum. Lilja tók betri helminginn með sér í ferðalagið á sunnudaginn en sá heitir Babacar, er af senegölsku bergi brotinn og var að upplifa sitt fyrsta eldgos.
Ferðin var hin skemmtilegasta eins og sjá má í meðfylgjandi myndskeiði. Lilja er eins og Ómar afar söngelsk en einungis liðu nokkrar mínútur frá því að þau fyrst hittust þar til þau byrjuðu að syngja af mikilli innlifun.