5.600 manns fengu bólusetningu gegn Covid-19 í dag og fá 9.000 manns bólusetningu á morgun. Á slaginu þrjú í dag var gríðarlega löng röð fyrir utan Laugardalshöllina, líkt og sjá má á meðfylgjandi myndskeiði. Aðsóknin frá þeim sem voru kallaðir aukalega inn í dag var svo mikil að einhverjir þeirra fengu ekki bóluefni. Þeir þurfa þó ekki að bíða lengi og verða næst boðaðir í bólusetningu nk. þriðjudag.
„Það er þannig með Pfizer og Moderna að við klárum það alltaf. Þegar fólk mætir ekki, við boðum kannski í 210 pláss og það mæta kannski bara 180 af þeim, þá bjóðum við áfram og yfirbjóðum svo að allt efnið klárist,“ segir Jórlaug Heimisdóttir, hjúkrunarfræðingur hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Fólkið sem kallað er inn aukalega, svokallaðir viðbótarhópar, er þá úr næsta forgangshópi. Í dag mættu fleiri í yfirboðunina en vonir stóðu til.
„Við kláruðum efnið eftir að við kölluðum inn viðbótarhópa,“ segir Jórlaug. „Málið er með þessi efni að við verðum alltaf að klára það sem er búið að blanda.“
Jórlaug segir að það hafi gengið virkilega vel að bólusetja í dag.