20.000 bólusett í Reykjavík í næstu viku

„Það er alveg ótrúlega góð tilfinning að sjá hvað þetta …
„Það er alveg ótrúlega góð tilfinning að sjá hvað þetta gengur vel og hvað allir eru samstilltir,“ segir Sigríður Dóra. mbl.is/Árni Sæberg

20.000 manns fá bólusetningu gegn Covid-19 í Reykjavík í næstu viku og verður sú vika því stærri hvað bólusetningar í höfuðborginni varðar en þessi. Bóluefni Janssen verður að öllum líkindum tekið í notkun í borginni í næstu viku en það var einungis notað á landsbyggðinni í þessari viku. Ýmsir hópar sem eiga erfitt með að mæta í tvær bólusetningar fá bóluefni Janssen, þar á meðal fólk í forgangshópum sem er á leið til útlanda.

„Við höfum fengið töluvert af þannig beiðnum. Það fólk mun fá Janssen, því þá verður það fullbólusett fljótt,“ segir Sigríður Dóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Hún tekur þó fram að einungis sé slíkt í boði fyrir þá einstaklinga sem komið er að í bólusetningu, ekki fyrir hvern þann sem er á leið til útlanda. Janssen er eina bóluefnið sem samþykkt hefur verið hérlendis sem bara þarf eina sprautu af.

„Ótrúlega góð tilfinning“

9.000 manns fá bólusetningu í Laugardalshöll í dag.

„Það er alveg ótrúlega góð tilfinning að sjá hvað þetta gengur vel og hvað allir eru samstilltir,“ segir Sigríður Dóra. Hún segir skjólstæðingana mæta vel, tímanlega og að þeir séu vel undirbúnir.

Breyta þurfti skipulaginu á bólusetningunum lítillega þegar þeim sem bólusetja átti dag hvern fjölgaði verulega. Nú er til að mynda bólusett á stærra svæði og fólk fær að sitja í 15 mínútur í sætum sínum eftir bólusetningu.

„Það eru margar hendur sem standa að þessu,“ segir Sigríður Dóra. „Kerfið sem er búið að setja upp með flæðið í gegn virkar. Þótt það sé mikil biðröð fyrir utan þá gengur hún hratt.“

Blöndunin tekur mikinn mannskap

Og álagið minnkar alls ekki á starfsfólk bólusetningarinnar næstu vikurnar því bólusetja á enn fleiri á komandi vikum.

„Í næstu viku verða 20.000 manns bólusettir í Reykjavík svo næsta vika er enn stærri. Það er bara mikið fagnaðarefni.“

Stór hluti þeirra sem starfa í bólusetningunni starfar almennt hjá heilsugæslunni. Sigríður Dóra segir að heilsugæslan nái samt sem áður að halda uppi nánast eðlilegri starfsemi.

„Það er aðallega blöndunin sem er mikið nákvæmnisverk og tekur mikinn mannskap,“ segir Sigríður Dóra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert