34.492 eru fullbólusettir

Um níu þúsund manns verða bólusettir við Covid-19 í Laugardalshöllinni …
Um níu þúsund manns verða bólusettir við Covid-19 í Laugardalshöllinni í dag. Dagurinn er sá stærsti í bólusetningum frá því þær hófust hér á landi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Alls hafa 34.492 einstaklingar verið fullbólusettir hér á landi eða 11,7% landsmanna.  Bólusetning er hafin hjá 52.546 einstaklingum. Alls hafa verið gefnir 121.530 skammtar af bóluefni á Íslandi frá því bólusetning hófst í lok desember. 

Í gær voru gefnir 7.666 skammtar af bóluefni, þar af voru 7.381 skammtur af bóluefni Pfizer en 285 skammtar af bóluefni AstraZeneca.

Í dag er enn stærri bólusetningardagur og er einkum verið að bólusetja með bóluefni Astra-Zeneca en þessa dagana er verið að bjóða þeim sem eru 60 ára og eldri bólusetningu með því bóluefni.

Um níu þúsund manns verða bólusettir við Covid-19 í Laugardalshöllinni í dag. Dagurinn er sá stærsti í bólusetningum frá því þær hófust hér á landi. Einnig verður bólusett víðar um land en ekki fengust upplýsingar um fjölda skammta á landsbyggðinni. Alls verða 26 þúsund skammtar gefnir í vikunni á landinu öllu, þar af fá 23 þúsund manns sinn fyrri skammt.

Þeir einu sem ekki eru boðaðir í þessa bólusetningu nú eru þeir sem samkvæmt áliti blóðmeinafræðinga eru með undirliggjandi sjúkdóma sem taldir eru geta aukið líkur á blóðsega- og blæðingarvandamálum.

Samkvæmt upplýsingum Lyfjastofnunar Evrópu hafa alvarleg blóðsega- og blæðingarvandamál sést eftir bólusetningu með bóluefni Astra-Zeneca hjá u.þ.b einum af 300.000 bólusettum, einkum konum yngri en 55 ára. Í Bretlandi er talað um að þessar aukaverkanir sjáist hins vegar hjá 6 af milljón bólusettum.

Þeir sem mæta ekki fá ekki aftur boð

„Þeir sem nú eru boðaðir í bólusetningu með Astra-Zeneca bóluefninu eiga því að vera eins öruggir og hægt er með bóluefnið. Bóluefnið er jafnframt mjög virkt við að koma í veg fyrir Covid-19.

Ef einstaklingar þiggja ekki það bóluefnið sem í boði er þá þarf ekki að láta vita. Þeir sem ekki þiggja bóluefnið geta hins vegar fylgst með auglýsingum í opna daga í bólusetningar fyrir sína aldurshópa en þeir dagar hafa ekki verið ákveðnir á þessari stundu. Þeir fá hins vegar ekki aftur boð úr miðlæga kerfinu. Ekki er hægt að óska eftir öðru bóluefni á grundvelli persónulegra óska eða annarrar sjúkrasögu, hvorki hjá heilsugæslu né sóttvarnalækni,“ segir í tilkynningu á vef Covid.is.

Nánast allir landsmenn 80 ára og eldri eru nú full bólusettir við Covid-19 og þeir sem eru 70 ára eldri hafa flestir fengið að minnsta kosti fyrri bólusetningu. Tæplega helmingur íbúa 60 ára og eldri hefur fengið að minnsta kosti fyrri bólusetningu og meðal 50 ára og eldri er hlutfallið tæp 28%.

Bólusetningardagatal stjórnvalda var síðast uppfært á mánudag en það má skoða hér og hér má sjá staðfestar áætlanir um afhendingu bóluefnis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert