Sami hjúkrunarfræðingurinn, Anna Ólafsdóttir, bólusetti bæði Kára Stefánsson, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, og Þórólf Guðnason sóttvarnalækni. Kári var bólusettur gegn Covid-19 fyrir rétt rúmum mánuði en Þórólfur fékk sína bólusetningu í dag.
„Ég verð að viðurkenna að ég er svolítið stressuð,“ sagði Anna, þó létt í bragði, í samtali við blaðamann rétt áður en hún bólusetti sóttvarnalækni sjálfan.
Þórólfur og Kári hafa báðir verið lykilmenn í baráttunni og umræðunni um kórónuveirufaraldurinn. Anna er einnig í lykilhlutverki, enda í framlínustétt eins og aðrir hjúkrunarfræðingar.
Þórólfur og Kári fengu báðir bólusetningu með bóluefni AstraZeneca.
Klappað var fyrir Þórólfi þegar hann settist niður til þess að þiggja bólusetningu sína í dag og héldu sumir því fram að dagurinn í dag væri jafnvel stærri í baráttunni við faraldurinn en dagurinn þegar Kári fékk sína bólusetningu, eins og heyra má á myndskeiði sem tekið var á svæðinu og er aðgengilegt hér.