Börn niður í átta ára gömul hafa fengið sendar myndir af kynferðislegum toga á netinu og börn niður í 11 ára gömul hafa verið þvinguð til að senda myndir af sér á netinu eftir að hafa verið hótað eða ógnað.
Þetta kom fram í máli Ólafar Ástu Farestveit, forstöðumanns Barnahúss, á fundi ríkislögreglustjóra um stafrænt kynferðisofbeldi gegn börnum.
Venjulega hafa um 10 til 15 börn sótt Barnahúsið heim á hverju ári sem hafa verið að senda kynferðislegar myndir af sér á netinu. Ef horft er á tímabilið janúar til mars á þessu ári er fjöldinn kominn upp fyrir fjöldann á heilu ári hingað til og er aukningin því gríðarleg.
Að sögn Ólafar Ástu eru börn m.a. fengin til að vera í kynferðislegum athöfnum með yngri systkinum sínum. Hún sagði það sláandi þegar rætt er við börn og unglinga að þeim finnst eðlilegt að fá sendar kynferðislegar myndir jafnvel daglega. Ræða þurfi við þau um hvar mörkin liggja.
Snapchat, Instagram og Playstation eru algengustu miðlarnir þar sem er hægt að nálgast börn, sérstaklega undir 15 ára. Gríðarlega mörg börn segja aftur á móti aldrei frá því sem gerist. Þess vegna er mikilvægt að fá þau til að tjá sig um þessi mál.
Ólöf Ásta sagði að eftir að börn senda frá sér myndir af kynferðislegum toga velti þau sér fyrir sér hvað gerist svo. Hún sagði börn, til dæmis 13 og 14 ára gömul, ekki hafa nægan þroska til að meta hvert myndin fer.
Óttinn þeirra snýst um hvert myndin fer. Þau eru oft þvinguð til að senda grófari og grófari myndir af sér meðal annars eftir að gerandinn segist vita hvar þau eiga heima. Þau verða óttaslegin og fara eftir því sem er óskað eftir.
Einstaklingar alls staðar að úr heiminum óska eftir kynferðislegum myndum og eru dæmi um aðila frá Pakistan og Asíulöndum.
Algengar afleiðingar eftir að börn hafa sent af sér myndir eru kvíði, þunglyndi og sjálfsskaði, sérstaklega ef myndirnar hafa verið vistaðar og börnin vita ekki hvar þær enda. „Við verðum að átta okkur á því að þetta tekur engan enda,“ sagði hún og átti við að þar sem börnin vita ekki hvar myndirnar enda séu þau í raun misnotuð áfram. Þau spyrja sig hver hafi séð myndirnar, amma, afi, vinir eða þegar þau sækja um störf í framtíðinni. „Þetta getur leitt af sér áfallastreitu,“ bætti hún við.
Ólöf sagði gríðarlega aukningu hafa orðið á stafrænu kynferðislegu ofbeldi gagnvart börnum og að því færi fagnaðarefni að átak sé að hefjast hérlendis í þessum málaflokki. „Við þurfum að auka meðvitund og fræðslu hjá börnunum, sérstaklega yngstu aldurshópunum því þau eru allt niður í átta ára komin með snjallsíma,“ sagði hún.