Covid-smit á Flúðum

Flúðir í flugsýn. Veiran er komin á svæðið.
Flúðir í flugsýn. Veiran er komin á svæðið. mbl.is/Sigurður Bogi

Einn greindist smitaður af Covid-19 í Hrunamannahreppi í gær. Í ljósi þess að viðkomandi á barn í grunnskólanum á Flúðum var ákveðið, til að gæta ýtrustu varkárni, að 4. og 5. bekkur skólans og kennarar tengdir þeim, yrðu heima í dag.

Nemandinn er einkennalaus og fer í sýnatöku í dag. Niðurstaða er væntanlega í kvöld og þá verður tekin ákvörðun með framhaldið, að sögn Halldóru Hjörleifsdóttur, oddvita Hrunamannahrepps. Nemendurnir í Flúðaskóla sem sendir voru heim eru fimmtán og kennararnir fimm.

Á Flúðum er haft samráð við almannavarnir og heilsugæsluna í Laugarási um framkvæmd aðgerða. Smitrakningarfólk vinnur nú að greiningu á hvaðan smitið sé komið.

„Þetta er í fyrsta sinn frá upphafi faraldursins sem veiran stingur sér niður hér í sveit,“ segir Halldóra.

Halldóra Hjörleifsdóttir er oddviti Hrunamannahrepps.
Halldóra Hjörleifsdóttir er oddviti Hrunamannahrepps. mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert