Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að kórónuveirufaraldurinn sé ekki í miklum vexti hér innanlands. Smitin níu sem greindust í gær virðast tengjast fyrri hópsmitum. Þórólfur veit ekki hvort mögulegt verði að aflétta aðgerðum að einhverju leyti 6. maí nk. þegar núverandi aðgerðir falla úr gildi en sér fyrir sér að skila tillögum um aðgerðir til ráðherra um næstu helgi.
„Þetta er svona svipað og hefur verið undanfarna daga. Við erum ekki að missa þetta upp í einhvern vöxt. Vonandi náum við að þrýsta þessu niður hægt og bítandi. Við eigum eftir að fara betur í þessar tölur en mér sýnist þetta allt tengjast fyrri hópsmitum,“ segir Þórólfur.
Eins og áður hefur verið greint frá kom upp hópsmit í Þorlákshöfn um helgina. Nokkrir þeirra sem smituðust eru ekki búsettir þar en starfa í Þorlákshöfn. 29 manns eru nú í einangrun á Suðurlandi. Spurður hvort smitið hafi dreifst mikið í landshlutanum segir Þórólfur:
„Við eigum eftir að fara betur yfir þessar tölur yfir smit frá í gær en mér sýnist þetta allt tengjast fyrri hópsmitum,“ segir Þórólfur.
Að hans sögn ganga bólusetningar á landsvísu vel. Um 25.000 manns verða bólusett um allt land í vikunni og jafnvel verða enn fleiri bólusettir á landsvísu í næstu viku.
„Það er mikill hugur og mikill gangur og gengur vel alls staðar og heilsugæslan um land allt á hrós skilið fyrir sína framkvæmd.“