Hægt að panta stafrænt kynferðisbrot gegn barni

Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn alþjóðasviðs ríkislögreglustjóra.
Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn alþjóðasviðs ríkislögreglustjóra. mbl.is/Golli

Hægt er að panta stafrænt kynferðisbrot gegn tilteknu barni og að það sé framið af ákveðnum aðila. Áskriftir að slíkum brotum eru síðan seldar á huldunetinu.

„Við skulum ekki halda það að Íslendingar séu ekki á meðal þeirra sem taka þátt í slíkum brotum,“ sagði Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn alþjóðasviðs ríkislögreglustjóra, á fundi ríkislögreglustjóra vegna stafræns kynferðisofbeldis gegn börnum.

Hann sagði aukningu vera í stafrænu kynferðisofbeldi gegn börnum í öllum Evrópulöndum og að verulegar líkur séu á því að brotin séu vantilkynnt. Að mati Europol eru brot sem þessi ein mesta ógnunin gegn okkar gildum og hefur mikil áhersla verið lögð á að berjast gegn þeim.

Oft er verið að glíma við skipulagða brotahópa í þessum málum. Samkvæmt nýjustu skýrslu Europol eru um 25% þekktra brotahópa virkir í 10 ár eða lengur og 7 af hverjum 10 eru virkir í mörgum löndum. Málin eru því alþjóðleg og þess vegna er alþjóðleg samvinna lykilatriði, að mati Karls Steinars.

Frá fundinum í dag. Karl Steinar er lengst til hægri …
Frá fundinum í dag. Karl Steinar er lengst til hægri á myndinni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Óvenjumargir undir 17 ára

Hann vitnaði í könnun Helga Gunnlaugssonar, afbrotafræðings og prófessors við Háskóla Íslands, og Jónasar Orra Jónassonar frá síðasta ári um að 1 af hverjum 5 hafi orðið fyrir broti á netinu, þar af hafa um 20% orðið fyrir kynferðislegri áreitni og 17% orðið fyrir því að myndum af þeim er dreift án þeirra samþykkis. 5% í viðbót hafa fengið slíka hótun.

Karl Steinar sagði óvenjuhátt hlutfall gerenda og þolenda vera yngri en 17 ára. Sakborningar eru um 21% í þessum aldurshópi og brotaþolar um 34%. Karlar eru 85% sakborninga og konur 85% brotaþola. Séu konur sakborningar er tæpur helmingur þeirra 17 ára og yngri og eru þessar tölur sambærilegar við önnur lönd.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra og Ásmundur Einar Daðason, félags- og …
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra og Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, á fundinum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Samstarf við Dani

Ísland hefur tekið þátt í að finna framleiðendur og framleiðslustaði barnaníðsefnis. Tvö íslensk mál hafa verið sett í gagnagrunn Interpol sem framlag lögreglunnar í alþjóðlegri baráttu gegn brotum gagnvart börnum. Einnig eru skoðaðar sambærilegar aðgerðir í gegnum gagnagrunn Europol. Á síðasta ári fékk lögreglan á höfuðborgarsvæðinu aðgengi að dönskum gagnagrunni varðandi aðgengi að barnaníðsefni. Um 100 þúsund myndir og myndbönd eru í grunninum. Tilgangurinn með samstarfinu er að lögreglan hér á landi búi til sinn eigin gagnagrunn og flýti þannig fyrir tæknilegum hlutum rannsókna sinna.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Samhliða þessu hefur lögreglan fengið aðstoð frá Dönum við að fylgjast með niðurhali á barnaníðsefni til Íslands á ákveðnum tímum á síðasta ári. Það hefur skilað sér í því að þó nokkur mál hafa komið til rannsókna og eru þar enn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert