Hjördís nýr skólastjóri í Skútustaðahreppi

Hjördís Albertsdóttir, nýráðinn skólastjóri, ásamt Sveini Margeirssyni, sveitarstjóra Skútustaðahrepps.
Hjördís Albertsdóttir, nýráðinn skólastjóri, ásamt Sveini Margeirssyni, sveitarstjóra Skútustaðahrepps. Ljósmynd/Aðsend

Hjördís Albertsdóttir hefur verið ráðin í stöðu skólastjóra Reykjahlíðarskóla frá 1. ágúst nk. Hjördís er einnig ráðin í starf leikskólastjóra á leikskólanum Yl. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Þar segir jafnframt:

„Hjördís er með B.Ed.-gráðu í grunnskólakennarafræði og hefur jafnframt lagt stund á MLM-nám í forystu og stjórnun við Háskólann á Bifröst. Hjördís hefur mikla kennslureynslu og hefur starfað sem varaformaður félags grunnskólakennara frá 2018. Þá hefur Hjördís ríka reynslu af stjórnun á ýmsum sviðum skólasamfélagsins.

Með ráðningu Hjördísar og samþættingu leik- og grunnskóla er stefnt að því að styrkja enn frekar skólasamfélag Skútustaðahrepps. Fjölbreytt náttúra og sterkt samfélag svæðisins eru grundvöllur slíkrar sóknar og mun reynsla Hjördísar af samþættingu námsgreina og þróun kennsluhátta nýtast ríkulega í því samhengi. Framtíðarsýn Hjördísar á þróun skólastarfs vó þungt við mat umsókna, en ráðgjafarfyrirtækið Ásgarður var sveitarfélaginu innan handar við mat á umsækjendum.

Reykjahlíðarskóli og leikskólinn Ylur mynda samfélag um 80 nemenda og starfsmanna, sem setur velferð og hagsmuni barna í forgang, með áherslu á lífsleikni, lýðheilsu, jafnrétti, fjölmenningu, lýðræðislegt samstarf og virðingu fyrir manngildi og sjálfbærni. Öflug tengsl við umhverfi og grenndarsamfélag og sérstaða nánasta umhverfis eru nýtt til kennslu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert