Jóhann áfram efstur

Jóhann Hjartarson (t.h.) lagði Sigurbjörn Björnsson að velli í dag …
Jóhann Hjartarson (t.h.) lagði Sigurbjörn Björnsson að velli í dag og er því áfram efstur í Íslandsmótinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jóhann Hjartarson stórmeistari er enn efstur á Íslandsmótinu í skák eftir sigur gegn Sigurbirni Björnssyni í sjöundu umferð mótsins sem fram fór í dag. Alls eiga aðeins þrír keppendur möguleika á Íslandsmeistaratitlinum nú þegar tvær umferðir eru eftir af mótinu.

Jóhann Hjartarson hefur fimm og hálfan vinning eftir góðan sigur gegn Sigurbirni í dag en á eftir honum kemur Hjörvar Steinn Grétarsson með fimm vinninga eftir sigur á Alexander Oliver Mai.

Vignir Vatnar Stefánsson er þriðji í mótinu með fjóra og hálfan vinning eftir að hafa lagt Björn Þorfinnsson að velli á laglegan hátt.

Vignir þarf hálfan vinning í tveimur síðustu umferðunum til þess að tryggja sér sinn annan áfanga að alþjóðlegum meistaratitli en þrjá áfanga þarf til þess að hljóta titilinn.

Guðmundur, Bragi, Hannes og Helgi með fjóra vinninga

Jafntefli varð í skákum Guðmundar Kjartanssonar og Braga Þorfinssonar, og Hannesar Hlífars Stefánssonar og Helga Áss Grétarssonar en þeir hafa allir fjóra vinninga.

Áttunda og næstsíðasta umferð fer fram á morgun og fá efstu menn allir sterka andstæðinga. Jóhann teflir við Braga, Hjörvar mætir Helga Áss og Vignir etur kappi við Guðmund. 

Lokaumferðin fer fram á föstudag en ef tveir eða fleiri keppendur verða jafnir og efstir verður teflt til þrautar með skemmri umhugsunartíma á laugardaginn. Hefst taflmennskan á morgun klukkan þrjú líkt og aðra daga og eru beinar útsendingar ávallt aðgengilegar á skak.is.

Vignir bar sigur úr býtum gegn Birni. Hann þarf núna …
Vignir bar sigur úr býtum gegn Birni. Hann þarf núna aðeins hálfan vinning í mótinu til þess að tryggja sér áfanga að alþjóðlegum meistaratitli. Fari svo er hann kominn með tvo áfanga en alls þarf þrjá slíka til þess að hljóta titilinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Helgi Áss gerði jafntefli í dag.
Helgi Áss gerði jafntefli í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert