Jóhann Hjartarson stórmeistari er enn efstur á Íslandsmótinu í skák eftir sigur gegn Sigurbirni Björnssyni í sjöundu umferð mótsins sem fram fór í dag. Alls eiga aðeins þrír keppendur möguleika á Íslandsmeistaratitlinum nú þegar tvær umferðir eru eftir af mótinu.
Jóhann Hjartarson hefur fimm og hálfan vinning eftir góðan sigur gegn Sigurbirni í dag en á eftir honum kemur Hjörvar Steinn Grétarsson með fimm vinninga eftir sigur á Alexander Oliver Mai.
Vignir Vatnar Stefánsson er þriðji í mótinu með fjóra og hálfan vinning eftir að hafa lagt Björn Þorfinnsson að velli á laglegan hátt.
Vignir þarf hálfan vinning í tveimur síðustu umferðunum til þess að tryggja sér sinn annan áfanga að alþjóðlegum meistaratitli en þrjá áfanga þarf til þess að hljóta titilinn.
Jafntefli varð í skákum Guðmundar Kjartanssonar og Braga Þorfinssonar, og Hannesar Hlífars Stefánssonar og Helga Áss Grétarssonar en þeir hafa allir fjóra vinninga.
Áttunda og næstsíðasta umferð fer fram á morgun og fá efstu menn allir sterka andstæðinga. Jóhann teflir við Braga, Hjörvar mætir Helga Áss og Vignir etur kappi við Guðmund.
Lokaumferðin fer fram á föstudag en ef tveir eða fleiri keppendur verða jafnir og efstir verður teflt til þrautar með skemmri umhugsunartíma á laugardaginn. Hefst taflmennskan á morgun klukkan þrjú líkt og aðra daga og eru beinar útsendingar ávallt aðgengilegar á skak.is.