Klappað var fyrir Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni þegar hann settist niður í Laugardalshöll til að fá bólusetningu við kórónuveirunni.
Fylgjast má með þessum hlýju viðbrögðum sem hann fékk í meðfylgjandi myndskeiði.
Þórólfur sagði líðanina fína þegar blaðamaður mbl.is á staðnum ræddi við hann að lokinni bólusetningunni.
„Mér finnst gott að vera kominn að og ánægjulegt að sjá þennan fjölda hérna og þetta flotta skipulag sem hér er í gangi,“ sagði Þórólfur.
Hann var bólusettur með bóluefni AstraZeneca sem hefur verið mikið í umræðunni undanfarið. „Við erum búin að boða bara þá sem við teljum að bóluefnið sé öruggt fyrir og við munum gera það áfram. Þetta bóluefni er öruggt og virkar mjög vel, alveg jafn vel og hin bóluefnin," sagði hann.
„Það á enginn að vera sérstaklega hræddur við þetta bóluefni og fólk á bara að gleðast yfir því að fá þessa bólusetningu,“ bætti hann við.
Þórólfur sagði að það væri alveg viðbúið að hann fengi einhverjar aukaverkanir í kjölfar bólusetningarinnar.
„Þegar við erum að horfa á bólusetningu þá virkar hún þannig að hún örvar ónæmiskerfið þannig að maður fær einhver einkenni; eymsli og þrota og jafnvel hita og beinverki. Það er það sem bóluefnið á að gera. Ef það gerir það þá er maður miklu öruggari með það að bóluefnið sé að gera það sem það á raunverulega að gera,“ sagði Þórólfur og bætti því við að fólk þyrfti „alls ekki“ að hafa áhyggjur ef upp koma vægar aukaverkanir í kjölfar bólusetningar.