Donald K. Johnson, Kanadamaður af íslenskum ættum, sendi nýverið frá sér bókina Lesson Learned on Bay Street. The Sale Begins When the Customer Says No. Bókin hefur vakið athygli vestra rétt eins og höfundurinn á liðnum áratugum. „Tilgangurinn með bókinni er að deila með lesendum því sem ég hef lært á 85 árum í þeirri von að sá lærdómur geti gagnast þeim,“ segir hann.
Foreldar Dons, eins og hann er gjarnan kallaður, voru íslenskir í báðar ættir. Páll Björn Jónsson, faðir hans, fæddist á Íslandi og flutti með foreldrum sínum til Lundar í Manitoba, um 100 km norður af Winnipeg, 1894. Fjóla Kristjánsson, móðir hans, fæddist í Otto í Manitoba. Don segist þakklátur fyrir að hafa alist upp í íslensku samfélagi og íslenski uppruninn hafi eflt hann til góðra verka og vísað honum réttu leiðina. „Ég er FBI,“ segir hann hreykinn; „Full Blooded Icelander!“
Að loknu háskólanámi, fyrst í rafmagnsverkfræði og síðan í markaðs-og fjármálum, var Don atkvæðamikill í fjármálaheiminum, meðal annars sem varaformaður fyrirtækisins BMO Nesbitt Burns, og er með um hálfrar aldar starfsferil að baki hjá kanadískum og alþjóðlegum fjárfestingarbönkum. Barátta hans fyrir því að afnema skatta af styrkjum einstaklinga og fyrirtækja til góðgerðarmála og stofnana í Kanada hefur skilað ótrúlegum árangri, en auk þess hefur hann sjálfur sérstaklega styrkt íslenska samfélagið í landinu.
Styrkir hans hafa til dæmis gert Þjóðræknisfélagi Íslendinga í Vesturheimi mögulegt að sýna eða stuðla að sýningu á íslenskum kvikmyndum víða vestra og er verkefnið nefnt eftir honum (The Donald K. Johnson INLNA Film Screening Series). Hann var maðurinn á bak við uppbyggingu bókasafnsins í Lundar sem er kennt við Pauline Johnson, kennara hans í barnaskóla, hefur stutt dyggilega við Íslendingadagsnefndina á Gimli, íslenskudeild Manitoba-háskóla og Stephan G. Stephansson-styrktarsjóðinn, sem er í vörslu Háskóla Íslands, svo dæmi séu tekin. Hann var sæmdur Kanadaorðunni 2004, riddaratign hennar 2009 og heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu 2019.
„Ég á engin önnur áhugamál en þau sem tengjast starfinu á einn eða annan hátt, vinn alla daga vikunnar og á aldrei frístund,“ segir Don á léttu nótunum, en hann hefur búið í Toronto síðan 1957 og situr í stjórnum sex fyrirtækja og stofnana.
Í bókinni tiltekur Don ýmsa þætti sem hafa mótað hann á langri lífsleið. Hann nefnir sérstaklega hvað andleg og líkamleg heilsa skipti miklu máli, leiðina að því að velja rétta starfsvettvanginn og mikilvægi þess að gefa aftur til baka til þeirra sem hafa gert vegferðina mögulega, ekki síst til æskustöðvanna og nánasta umhverfis. Hann segir líka mikilvægt að einbeita sér að ákveðnu máli, þar sem megi hafa áhrif til hins betra, bendir á að þrautseigju og aga þurfi til að ná árangri og útskýrir hvernig ná megi samningum í fjármálaheiminum. Enn fremur gerir hann grein fyrir hvernig beri að haga sér til þess að koma mikilvægu baráttumáli í gegn hjá ríkisstjórn og vísar í fyrrnefnda vegferð í sambandi við styrki og skattaafslátt. „Bókin á erindi til allra,“ leggur hann áherslu á.