Mikill hallarekstur í Árborg

Miklar framkvæmdir standa yfir í Árborg og íbúum fjölgar ört. …
Miklar framkvæmdir standa yfir í Árborg og íbúum fjölgar ört. Verið er að reisa nýjan miðbæ á Selfossi sem senn verður tekinn í notkun. Morgunblaðið/Árni Sæberg

Alls 578 milljóna króna hallarekstur varð af rekstri Sveitarfélagsins Árborgar á síðasta ári. Covid-faraldurinn átti afgerandi þátt í að niðurstaðan varð þessi, auk þess sem mikill kostnaður við margvíslega uppbyggingu jafnhliða fjölgun íbúa tekur í, skv. fréttatilkynningu.

Ásættanlegt í ljósi aðstæðna

Hægt er að rekja að lágmarki 460 m.kr. til heimsfaraldurs Covid-19 og 200 m.kr. til óvenjulegrar hækkunar í fjármagnsliðum, segir Gísli Halldór Halldórsson bæjarstjóri. Án ofangreindra áfalla hefði orðið afgangur af rekstri samstæðu Árborgar upp á um 100 milljónir króna. Niðurstaða ársreiknings 2020 getur talist ásættanleg í ljósi aðstæðna.

„Markmið Svf. Árborgar í viðbrögðum við Covid-19-heimsfaraldrinum hefur verið að styðja við og styrkja efnahag, samfélag og þjónustu í sveitarfélaginu. Sveitarfélagið hefur axlað byrðar með ríkinu og má þar benda á gríðarlegan niðurskurð Jöfnunarsjóðsframlaga. Sveitarfélagið hefur einnig tekið á sig tekjulækkun og kostnaðarauka vegna sérstakra eigin aðgerða og utanaðkomandi aðstæðna,“ segir í fréttatilkynningu.

Fjármagnsliðir hækka

Heimsfaraldur Covid-19 hefur af framangreindum ástæðum leitt til hallaaukningar í ársreikningi upp á hartnær hálfan milljarð. Fjármagnsliðir hækka því til viðbótar verulega, vegna aukinnar verðbólgu og 10% árshækkunar launa, svo nemur 400 milljónum. Önnur sveitarfélög hafa glímt við sama verkefni eins og sést skýrum hætti í ársreikningum þeirra, segir í frétt frá Árborg. 

Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri í Árborg.
Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri í Árborg. Morgunblaðið/Ásdís Ásgeirsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert