122 brot gegn sóttkví og einangrun hafa verið skráð hér á landi og 193 brot gegn sóttvörnum. Nánast öruggt er að brotin séu margfalt fleiri, samkvæmt skýrslu almannavarna. Tilkynningar um grun um brot eru heldur fleiri eða 6.021 talsins. Ívið fleiri grunaðra í þessu samhengi eru karlmenn, eða 68%, en konur eru 32% grunaðra. Í flestum tilvikum eru þeir sem grunaðir eru um brot á sóttkví eða einangrun búsettir á Íslandi eða rúmlega 57%.
Skýrslan tekur mið af stöðunni 21. apríl síðastliðinn.
62 brotanna voru framin þannig að einstaklingur fór út af heimili sínu án þess að brýna nauðsyn bæri til fór á mannamót eða staði þar sem margir komu saman. Fimmtán brot voru framin þannig að einstaklingur með staðfesta sýkingu eða ætla mátti að kynni að vera smitaður sinnti ekki einangrun. Tvö slík tilvik hafa komið upp á þessu ári.
Flestir sóttkvíar-/einangrunarbrjótar eru á aldrinum 25 til 34 ára eða 32%. Þótt stærstur hluti grunaðra sé búsettur hér á landi er 71% grunaðra með erlent ríkisfang.
Flest brotin eru tengd einstaklingum sem eru að ferðast yfir landamæri, 83% brota í heildina en öll brot sem skráð hafa verið á þessu ári. Þá eru átta einstaklingar grunaðir um tvö brot eða fleiri en í öllum tilvikum var um að ræða tilvik sem tengjast, s.s. ferðamenn sem lögregla hafði ítrekuð afskipti af.
Af þeim málum sem hafa komið upp eru 50 enn til rannsóknar, 43 eru komin til sektarmeðferðar eða afgreidd með sekt og 31 máli lauk með því að rannsókn var hætt
Í skýrslunni er tekið sérstaklega fram að í nokkrum málum „voru óljósar upplýsingar um ástæðu sóttkvíar og voru þau túlkuð sem mál sem ekki tengjast landamærum. Þá ber að hafa það í huga að hér er um að ræða brot sem lögregla hefur vitneskju um, nánast öruggt er að brotin eru margfalt fleiri og geta þættir eins og sýnileiki brota þeirra sem dvelja á hótelum og þekking á reglum haft áhrif á það hvaða upplýsingar berast lögreglu og þá eðli þeirra mála sem birtast hér.“