Einfalda verður regluverk hér á landi og gera það gagnsæjara þegar kemur að málefnum hælisleitenda og kvótaflóttafólks að mati aðstoðarmanns utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, Diljár Mistar Einarsdóttur, en hluti af þeim kostnaði sem þar fellur til er skilgreindur sem þróunarsamvinna samkvæmt alþjóðlegum stöðlum þar um.
Fyrirkomulag kerfisins segir Diljá að verði að endurskoða enda séu fjármunir sem veittir eru í þróunarsamvinnu hérlendis ekki óþrjótandi. Hún segir að það sé mikilvægt að fjárframlög Íslands til þróunarsamvinnu séu vel nýttir og þar séu útlendingamálin ekki undanskilin.
„Umsóknum um alþjóðlega vernd hefur fjölgað verulega undanfarin ár og hælisveitingum sömuleiðis sem þýðir aftur að kerfið utan um þetta hefur blásið út. Auðvitað eigum við að gera okkar allra besta þegar kemur að stuðningi við fólk á flótta undan raunverulegum ógnum og að mínu mati eigum við að gera betur og meira í þeim málum, t.a.m. þegar kemur að kvótaflóttafólki. Það þýðir samt ekki við getum slakað á faglegum kröfum sem við gerum við ráðstöfun opinbers fjár og að fullkomið jafnræði og gagnsæi ríki við útdeilingu þess,“ segir Diljá Mist við mbl.is.
Árið 2019 sóttu 867 einstaklingar um hæli hér á landi og námu útgjöld hins opinbera vegna hælisleitenda hátt í fjórum milljörðum króna. Af þeirri upphæð voru um 800 milljónir flokkaðar sem þróunarsamvinna samkvæmt reglum OECD.
Hlutfall af framlögum til þróunarsamvinnu sem raunverulega fer í móttöku flóttafólks og hælisleitenda hefur svo hækkað snarlega síðustu ár: árið 2014 fóru 9% framlaga til þróunarsamvinnu í móttöku flóttafólks og hælisleitenda hér á landi en árið 2017 var hlutfallið orðið 32%, með tilheyrandi lækkun framlaga til þróunarsamvinnu á vettvangi.
Diljá segir að skoða verði fjárupphæðir, sem fara í kerfið við móttöku hælisleitenda og flóttafólks, í samhengi við verkefni Íslands í þróunarsamvinnu á vettvangi, þar sem við teljum fjármunina fram samkvæmt reglum Þróunarsamvinnunefndar Efnahags- og framfarastofnunarinnar eins og þau lönd sem við berum okkur saman við.
„Það kostar um fjórar milljónir króna að veita þúsund manns aðgang að hreinu vatni og salernisaðstöðu í samstarfslöndum Íslands í Afríku. Einnig er hægt að grunnbólusetja yfir 1.700 börn fyrir sömu fjárhæð,“ bendir Diljá á.
Diljá, sem aðstoðar utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra sérstaklega við meðferð og stjórnun þróunarsamvinnuverkefna, segir að vegna heimsfaraldurs kórónuveiru hafi horfur í mörgum þróunarríkjum færst áratugi aftur í tímann.
Milljónir horfi fram á hungursneyð, milljónir barna verði af bólusetningum og grunnmenntun, og ákall eftir mannúðaraðstoð sé sterkt. Þetta hræðir Diljá sem hefur heimsótt samstarfslönd Íslands í Afríku og séð að það sem hún segir vera bágbornar aðstæður.
Ísland leggur sitt af mörkum á margvíslegan máta. Eitt stærsta átak í þróunarsamvinnu síðari ára er enda Covax-bóluefnasamstarf Sameinuðu þjóðanna, sem Ísland tekur þátt í. Það hverfist um að fátækari þróunarríkjum gefist kostur á því að kaupa bóluefni til þess að verja íbúa sína gegn kórónuveirunni.
„Þörfin á því að framlög Íslands til þróunarsamvinnu séu nýtt sem best og gagnist þeim sem mest þurfa á þeim að halda hefur í raun aldrei verið meiri. Því betur sem við höldum utan um þessa fjármuni þeim mun betur getum við hjálpað þeim sem raunverulega eru hjálparþurfi,“ segir hún.