Segir yfir 90% ánægða með glæra ruslapoka

Enn verður hægt að koma með föt til Rauða krossins …
Enn verður hægt að koma með föt til Rauða krossins í svörtum ruslapokum. mbl.is/Styrmir Kári

Viðbrögð almennings við ákvörðun Sorpu að fyrirtækið muni ekki taka við úrgangi í svörtum ruslapokum frá og með 1. júlí hafa verið frekar jákvæð. Þetta segir Gunnar Dofri Ólafsson, sérfræðingur í samskiptum hjá Sorpu, í samtali við mbl.is í morgun. „Við höfum ekki orðið vör við óánægju með þetta. Það er auðvitað aldrei hundrað prósent ánægja, en níutíu og eitthvað prósent viðbrögð eru jákvæð.“

Aðspurður hvort viðskiptavinum Sorpu yrði vísað í burtu ef úrgangur er ekki í réttri gerð af pokum segir hann að Sorpa hafi ekki sett niður nákvæmlega hvernig brugðist verði við því. „Í rauninni treystum við á að það verði fá tilvik. Viðbrögðin sem við sjáum benda eindregið til þess.“   

Framboðið á glæru pokunum er töluvert, en hægt er að kaupa þá í helstu stóverslunum landsins. Einnig er hægt að kaupa þá beint frá Sorpu en rúlla með 25 pokum kostar þar 1.500 krónur. Að sögn Gunnars Dofra eru gæðin á glæru pokunum sambærileg við þau sem fólk kannast við af svörtu ruslapokunum. „Það hefur alla vega ekki að okkur vitandi verið til vandræða.“

Þó svo landsmenn muni ekki geta skilað úrgangi sínum í svörtum ruslapokum til Sorpu, þá merkir það ekki að þeir verði hlutverkslausir í meðhöndlun úrgangs. „Það er hægt að nýta þá poka í annað eins og t.d. fyrir föt sem fara til Rauða krossins í grenndargáma,“ útskýrir Gunnar Dofri.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert