Á meðan bólusetningum fleygir fram innan Laugardalshallarinnar hefur orðið vart við aðra þróun utan hennar. Þar hefur bílum oft og víða verið lagt upp á viðkvæma grasbletti, en við stýrið hafa væntanlega verið ökumenn sem vilja ólmir komast í boðaða bólusetningu.
Lögreglan í bílaborginni Reykjavík hefur áður verið ófeimin við að sekta ökumenn sem kjósa að leggja bifreiðum sínum með þessum hætti, eða að minnsta kosti á stórviðburðum í Laugardal.
Árni Friðleifsson, aðalvarðstjóri í umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við mbl.is að nú um sinn hafi verið horft til þess að um stórt og mikilvægt samfélagsverkefni sé að ræða.
Af þeim sökum hafi lögreglan afráðið að sekta ekki þá ökumenn sem leggja ólöglega.
„Síðustu misseri hefur verið hér fólk með undirliggjandi sjúkdóma og fólk sem á erfitt með gang, og stæðin fyrir handhafa P-merkja hafa verið mjög vel nýtt,“ segir Árni.
„Það er ekkert leyndarmál að þetta hefur verið elsti hópur okkar Íslendinga, sem hefur verið að fá bólusetningar. Engu að síður eru ákveðin lög og ákveðnar reglur sem gilda, og við getum ekkert horft fram hjá því.“
Hann nefnir að fyrst í dag hafi lögreglu borist kvartanir vegna þessa.
„Þetta var stærsti dagurinn til þessa, í dag, og mér skilst að Reykjavíkurborg hafi fengið einhverjar kvartanir. Við þurfum einfaldlega að ræða við borgina um þetta og finna einhverja útfærslu eða lausn á þessum vanda.“
Árni nýtir tækifærið og tekur fram að fjölda stæða sé að finna í Laugardalnum. Til að mynda við höfuðstöðvar KSÍ á Laugardalsvelli, við íþróttasvæði Þróttar og svo við Skautahöllina.
Athygli hefur vakið að umferðardeildin stýrir umferð bæði fyrir utan höllina og innan hennar. Raunar er það svo að fleiri lögreglumenn eru að störfum inni en úti.
„Það eru alla jafna fjórir til sex lögreglumenn inni og tveir til fjórir úti,“ segir Árni og bendir á að unnið sé að bólusetningum frá níu að morgni til fjögur síðdegis.
Inni í höllinni eru að minnsta kosti engir pirraðir ökumenn fyrir umferðardeildina til að eiga við.
„Þetta hefur verið virkilega ánægjulegt verkefni. Það eru allir glaðir sem eru að koma og fá bólusetningu.“