Skinnin á uppboð í Finnlandi

Gæðin eru prófuð hjá uppboðshúsinu áður en skinn eru boðin …
Gæðin eru prófuð hjá uppboðshúsinu áður en skinn eru boðin upp. mbl.is/Helgi Bjarnason

Samband íslenskra loðdýrabænda á í viðræðum við finnska uppboðshúsið Saga Furs um að taka til sölu minkaskinn íslenskra framleiðenda. Danska uppboðshúsinu Kopenhagen Fur, sem í mörg ár hefur selt fyrir alla íslenska minkabændur, verður lokað og tekur ekki við framleiðslu þessa árs.

Einar Eðvald Einarsson, formaður Sambands íslenska loðdýrabænda, segir að tveir möguleikar séu í stöðunni. Hægt sé að semja við finnska uppboðshúsið á svipuðum nótum og gilti við viðskipti við danska uppboðshúsið. Eins geti einstakir framleiðendur ákveðið að selja í gegnum umboðsmenn.

Einar á von á því að sambandið semji við Saga Furs en ekki sé enn vitað hvernig þeir samningar verði.

Allir minkar voru skornir niður í Danmörku vegna ótta við nýtt afbrigði kórónuveirunnar. Uppboðshúsið er enn að selja skinn frá ósýktum búum og frá framleiðendum í öðrum löndum. Því verður hins vegar lokað um áramót og núverandi eigendur vilja selja eignirnar. Er því mikil óvissa um framhaldið þar.

Verð á minkaskinnum hækkaði um 23% að meðaltali á uppboði hjá Kopenhagen Fur sem nú er lokið. Kemur hækkunin til viðbótar 80% hækkun í febrúar. Hefur verðið því meira en tvöfaldast frá áramótum.

Uppboðið var rafrænt en fulltrúum kaupenda gafst kostur á að skoða skinnin í eigin persónu.

Ljóst er að margra ára offramboð á skinnum hefur snúist við og hefur Kopenhagen Fur trú á að árið verði gott. Hráefni vanti í Asíu og það eykur traust á markaðnum að það voru framleiðendurnir sjálfir sem keyptu skinnin til að eiga hráefni til að framleiða úr, ekki loðskinnakaupmenn.

helgi@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert