Sleppa ekki við sóttkví þrátt fyrir bólusetningu

Frá Leifsstöð. Þar eru farþegar skimaðir í gríð og erg.
Frá Leifsstöð. Þar eru farþegar skimaðir í gríð og erg. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fullbólusettir einstaklingar, sem hafa verið bólusettir gegn Covid-19 með bóluefnum sem ekki hafa verið samþykkt hér innanlands, geta ekki sloppið við tvöfalda skimun með nokkurra daga sóttkví á milli við komuna til landsins. Þetta kemur fram í skriflegu svari frá utanríkisráðuneytinu við fyrirspurn mbl.is.

Eins og sakir standa eru aðeins vottorð vegna bóluefna sem hlotið hafa markaðsleyfi hér á landi samþykkt á landamærunum.

Engar fréttir um opnun fyrir bólusetta borist

Bóluefni AstraZeneca sem er í notkun hér hefur ekki verið samþykkt í Bandaríkjunum. Spurður hvort fullbólusettum einstaklingum, sem bólusettir hafa verið með bóluefni AstraZeneca, verði heimilt að ferðast til Bandaríkjanna án þess að sæta einhvers konar sóttkví og/eða sýnatöku við komuna til landsins skrifar Sveinn H. Guðmarsson, deildarstjóri upplýsinga- og greiningardeildar utanríkisráðuneytisins:

Landamæri Bandaríkjanna eru enn lokuð nema með undanþágu (á grundvelli strangra skilyrða). Enn hafa engar fréttir borist um að Bandaríkjamenn hyggist opna landamæri fyrir bólusetta einstaklinga og þá hvaða bóluefni verði tekin sem gild. Ísland er ekki í hæsta áhættuflokki bandarískra stjórnvalda vegna ferðalaga á kórónuveirutímum en hins vegar er ekki mælt með ferðalögum hingað til lands.“

Engar formlegar viðræður standa yfir

Á utanríkisráðuneytið í viðræðum við einhver erlend ríki um að leyfa komur fullbólusettra Íslendinga? 

„Utanríkisráðuneytið á að svo stöddu ekki í formlegum viðræðum við stjórnvöld í öðrum ríkjum um að leyfa komur fullbólusettra Íslendinga,“ segir í svarinu.

Nánari upplýsingar um vottorð vegna bólusetningar gegn Covid-19 má finna hér.

Hér má nálgast ráðleggingar um ferðalög til Bandaríkjanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert