Mótorhjólafólk er komið á stjá og sést víða á ferð um götur borgarinnar þessa dagana. Vel hefur viðrað síðustu kvöld til þess að fara á rúntinn, sem Sniglar tóku frá Ingólfstorgi í Reykjavík í gærkvöldi.
Bensínlyktin lá í loftinu þegar bifhjólamenn gáfu fákum sínum hressilega inn, og óku til móts við væntingar á vorkvöldinu. Sumarið er fram undan með ótal ökuferðum, að ætla verður, og leiðin er greið!
Hin árlega hópkeyrsla Snigla verður 1. maí. Safnast verður saman efst á Laugavegi laust fyrir hádegi og svo ekið af stað. Lagt verður af stað kl. 12:30 og farið vítt um stofnbrautir borgarinnar og markið er verslun Bauhaus undir Úlfarsfelli.
Ekki mega fleiri en 50 vera saman í hóp og ekki má blandast á milli hópa, grímuskylda og tveggja metra regla skal ávallt höfð í fyrirrúmi.