Niðurstöður rafsegulsviðsmælinga Geislavarna ríkisins benda til þess að spennistöðvar valdi engri eða mjög lítilli hækkun á styrk segulsviðs í íbúðarhúsnæði ef það er staðsett í nokkurra metra fjarlægð frá spennistöð.
Borið hefur á áhyggjum fólks af nábýli við spennistöðvar. Af þeim ástæðum gerðu Geislavarnir ríkisins tímabundið átak í því að fjölga mælingum á rafsegulsviði við spennistöðvar. Í skýrslu um mælingarnar kemur fram að mælt var allt frá húsvegg spennistöðvar og í nokkurra metra fjarlægð, eftir því sem hægt var vegna aðstæðna. Styrkur rafsviðs við spennistöðvarnar reyndist mjög lítill, að því er fram kemur í skýrslunni, eða 0,002% af viðmiðum alþjóðageislavarnaráðsins fyrir almenning.
Með hliðsjón af niðurstöðunum telja Geislavarnir að ekki sé tilefni til umfangsmeiri mælinga á styrk segulsviðs við spennistöðvar á Íslandi, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.