Fjöldi fólks mætti í bólusetningu á Heilsugæslustöðinni á Egilsstöðum í dag á stærsta bólusetningardeginum í bænum hingað til. Alls voru 428 bólusettir á Egilsstöðum og Seyðisfirði í dag.
Við bólusetninguna hittust fjögur systkini, Aðalsteinsbörn, öll frá Vaðbrekku í Hrafnkelsdal. Sigurður var bólusettur með bóluefni AstraZeneca en öll hin þrjú voru að störfum við bólusetninguna.
„Þetta var svolítið sérstakt, maður þekkti nánast alla þarna. Systkinin mín voru þarna; Aðalsteinn sá um að raða stólum í salinn og Ingibjörn leiddi fólk inn í salinn. Svo kom Margrét systir og var með skanna til þess að skanna strikamerki í símunum,“ segir Sigurður í samtali við mbl.is.
Bólusetning er nú í fullum gangi en níu þúsund manns voru bólusettir í Laugardalshöll í dag og er því um að ræða stærsta bólusetningardaginn frá því bólusetningar hófust hér á landi við Covid-19.
Alls verða 26 þúsund skammtar gefnir í vikunni á landinu öllu, þar af fá 23 þúsund manns sinn fyrri skammt.