„Það birtir til með hverjum deginum“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir gleðilegt að allt bendi til þess að spá hennar í upphafi árs um að meirihluti þjóðarinnar yrði bólusettur fyrir mitt ár sé að ganga eftir.

„Við erum svo sannarlega ekki laus við veiruna – það finna þau sem hafa orðið fyrir barðinu á henni að undanförnu. Það minnir okkur öll á að halda vöku okkar og halda áfram að gæta okkar til að koma í veg fyrir fleiri smit í samfélaginu,“ skrifar Katrín á facebook-síðu sína.

„En það breytir því ekki að eftir því sem fleiri komast í skjól verða áhrifin minni í samfélaginu. Munum að það birtir með hverjum deginum, bæði með hækkandi sól og fleiri bólusetningum,“ bætir hún við en áætlað er að um 25 þúsund skammtar verði gefnir í þessari viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert