„Hann talaði hátt og blótaði mikið“

Ma­rek Moszczynski er ákærður fyr­ir brennu, mann­dráp og til­raun til …
Ma­rek Moszczynski er ákærður fyr­ir brennu, mann­dráp og til­raun til mann­dráps með því að hafa kveikt í á þrem­ur stöðum í hús­inu við Bræðra­borg­ar­stíg. Þrír lét­ust í brun­an­um. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ma­rek Moszczynski var aug­ljós­lega mjög veik­ur þegar geðlækn­ir reyndi að ræða við hann dag­inn eft­ir elds­voðann við Bræðra­borg­ar­stíg síðasta sum­ar. Þrír geðlækn­ar sögðu við aðalmeðferð í máli gegn Ma­rek, sem er er ákærður fyr­ir brennu, mann­dráp og til­raun til mann­dráps með því að hafa kveikt í á þrem­ur stöðum í hús­inu við Bræðra­borg­ar­stíg, að hann hafi ekki verið fær um að stjórna gjörðum sín­um þegar elds­voðinn varð.

Þrír lét­ust í brun­an­um 25. júní en Ma­rek neit­ar sök og hann er met­inn ósakhæf­ur sam­kvæmt yf­ir­mati geðlækna. Verj­andi Ma­reks óskaði eft­ir því að þing­hald væri lokað á meðan geðlækn­ar ræddu ástand hans eða að öðrum kosti mættu fjöl­miðlar ekki fjalla um það sem kæmi þar fram. Dóm­ar­inn hafnaði þeim kröf­um.

„Hann talaði hátt og blótaði mikið. Það var erfitt að ná nokkru sam­hengi í það sem hann sagði. Hann end­ur­tók það sama aft­ur og aft­ur og talaði í hringi,“ sagði einn geðlækn­ir­inn um fyrsta fund hans og Ma­reks dag­inn eft­ir brun­ann.

Var með maga­sár og óttaðist að það væri ban­vænt

Í ljós kom að Ma­rek hafði verið veik­ur frá því í byrj­un maí og lést um tólf kíló. Hann lá inni á Land­spít­ala í nokkra daga með maga­sár en um tíma var talið að um krabba­mein væri að ræða. Fyr­ir dómi kom fram að Ma­rek taldi veik­ind­in ógna lífi hans og komst ekki að hinu sanna fyrr en eft­ir brun­ann.

Um­rædd­ur geðlækn­ir ræddi við Ma­rek degi síðar, 27. júní, og ástand hans var svipað og við fyrsta fund þeirra. 

Hann hafi enn verið veik­ur í geðrof­s­ein­kenn­um 3. júlí og talað sam­heng­is­lítið. Tí­unda júlí var Ma­rek ró­legri og gat gefið sam­felld­ari mynd og sögu af því sem hafði gerst. Ástand hans hafi síðan verið orðið mun betra 27. júlí.

Geðlækn­ir­inn ræddi við vinnu­fé­laga Ma­reks sem sagði hann vand­ræðalaus­an. Skömmu fyr­ir brun­ann hafi hann hins veg­ar verið ör og ólík­ur sjálf­um sér. 

„Það er eng­in spurn­ing um að ef sök sann­ast á hann hafi hann ekki verið fær um að stjórna gjörðum sín­um,“ sagði geðlækn­ir­inn. Ma­rek hafi verið í geðrofs­ástandi 25. júní í fyrra og lík­lega í man­íu.

Ósak­hæf­ur en ætti að vera und­ir eft­ir­liti

Í síðasta viðtali Ma­reks og geðlækn­is­ins hafi hann verið ró­lynd­ismaður sem svaraði öll­um spurn­ing­um skýrt og greini­lega. 

Geðlækn­ir­inn ít­rek­ar að í hans huga er eng­inn vafi á að Ma­rek er ekki sak­hæf­ur og mjög ólík­legt sé að hann geri sér upp veik­indi til að kom­ast und­an fanga­vist. Eng­in önn­ur dæmi eru um geðrofs­ástand, fyr­ir utan óljós­ar fregn­ir þess efn­is frá Póllandi fyr­ir tæp­um 40 árum.

Geðlækn­ir­inn tel­ur rétt að ef Ma­rek verði fund­inn sek­ur að hann verði und­ir eft­ir­liti rétt­ar­geðdeild­ar eða ein­hverju slíku.

Tveir aðrir geðlækn­ar sem komu fyr­ir dóm tóku und­ir með þeim fyrsta varðandi ósakhæfi Ma­reks, ef hann yrði fund­inn sek­ur.

Enn frem­ur hafi maga­sárið og mögu­leg­ar fregn­ir af ban­væn­um sjúk­dómi skapað þetta geðrofs­ástand sem hann hafi verið í síðasta sum­ar. Óvenju­legt sé að ein­kenni svipuð þess­um komi fram á þess­um aldri, þótt það sé alls ekk­ert óhugs­andi. 

Eðli­leg­ast væri að fagaðilar mætu ástand Ma­reks og hann yrði vistaður á viðeig­andi stofn­un. Hversu lengi það yrði sé ómögu­legt að segja til um.

Skýrslu­tök­ur halda áfram á föstu­dag áður en munn­leg­ur mál­flutn­ing­ur fer fram.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert