Smit greindist hjá nemanda í Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi í gærkvöldi og hafa nú 90 nemendur og fimm kennarar skólans verið sendir í sóttkví. Þetta staðfestir Olga Lísa Garðarsdóttir, skólameistari FSu. Nemandinn var síðast í skólanum á þriðjudag.
Vísir greindi fyrst frá smitinu. Þar kemur fram að 110 nemendur hafi farið í sóttkví en Olga segir að það hafi nú komið í ljós að aðeins færri nemendur þurfi að sæta sóttkví.
„Það eru náttúrulega mörg smit í Þorlákshöfn og við erum með marga nemendur frá Þorlákshöfn,“ segir Olga í samtali við mbl.is en staðfestir þó ekki að nemandinn sem smitaðist sé þaðan.
Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss, sagði á Facebook í gærkvöldi að eitt nýtt kórónuveirusmit hafi greinst í Þorlákshöfn í gær. Í gærkvöldi voru 97 manns í sóttkví í bænum og 13 í einangrun.
„Við erum búin að vera hikandi vegna þess að fólk vinnur auðvitað þvers og kruss hér á Suðurlandi svo við erum búin að vera á tánum vegna þessara smita þar,“ segir Olga Lísa.
Sem stendur er ekki útlit fyrir að gripið verði til almennra aðgerða á Selfossi vegna smitanna.