Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðarráðherra þakkaði Guðna A. Jóhannessyni, fráfarandi orkumálastjóra, fyrir vel unnin störf á frumlegan hátt á ársfundi Orkustofnunnar í dag.
Um Guðna sagði hún: „Guðni [hefur] sinnt sínum störfum af stakri fagmennsku, sóma og heilindum, í þágu lands og þjóðar. Guðni hefur líka verið virkur í opinberri umræðu um orkumál, sem oft á tíðum getur verið hatrömm og ekki alltaf byggð á staðreyndum. Þegar horft er til baka yfir þau þrettán ár sem hann hefur gegnt embættinu sjáum við að margt hefur áunnist, bæði hvað varðar jákvæða framþróun í orkumálum sem og í starfsemi og rekstri Orkustofnunar.“
Þórdís gerði árleg jólaerindi Guðna að sérstöku umtalsefni en hann hefur verið þekktur fyrir að liggja ekki á skoðunum sínum í jólakveðjum sínum.
„Eitt af því sem við eigum öll eftir að sakna er árlegt jólaerindi orkumálastjóra, sem iðulega strauk sumum öfugt en öðrum rétt, og rataði gjarnan rakleitt í fjölmiðla með tilheyrandi athugasemdum í kommentakerfunum. Þessi árvissi viðburður var næstum orðinn jafn stór hluti af jólahátíðinni og að heyra Gerði G. Bjarklind, þulu Ríkisútvarpsins, óska landsmönnum gleðilegra jóla klukkan sex. Það voru eiginlega ekki jól fyrr en bæði Gerður og Guðni höfðu talað.
Við höfum ákveðið í tilefni af starfslokum Guðna að safna þessum jólaerindum hans saman og láta prenta þau í fallega innbundna bók til að gefa Guðna – og kannski fleirum með hans leyfi – þegar hann lætur formlega af embætti. Það væri auðvitað of langt gengið að láta hana heita jólaguðspjallið, en kannski hún gæti heitið jóla-Guðna-spjallið.“
Að lokum þakkaði Þórdís Guðna fyrir þjónustu sína, farsælt samstarf og ánægjuleg kynni og afhenti honum forlátan sómakólf en ekki blómvönd eins og venjan er.
Hún sagði að plantan væri einstaklega lífsseig og stækkar ört, sem henni fannst meira viðeigandi að færa Guðna.