Grunur er um að íslenskir lífeyrissjóðir hafi um árabil greitt félaginu Init og tengdum félögum í eigu þess, hundruð milljóna fyrir rekstur tölvukerfis sem geymir persónuupplýsingar um 100 þúsund vinnandi Íslendinga.
Fjármunir sem lífeyrissjóðir greiða Init virðast svo streyma í skyld félög sem hafa enga starfsemi og virðast þjóna þeim eina tilgangi að greiða hluthöfum þeirra arð.
Þetta kemur fram í gögnum sem Kveikur hefur undir höndum og fjallaði um á RÚV í kvöld.
Eitt helsta tölvukerfi sem stærstu lífeyrissjóðir og verkalýðsfélög hér á landi nota kallast Jóakim og er í eigu Init.
Kveikur ræddi meðal annars við Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóra Eflingar, sem segir að Jóakim sé notaður til að halda utan um öll réttindi félagsmanna Eflingar. Hann hafi veitt því athygli fyrir þremur árum, þegar hann hóf störf hjá Eflingu, hve hár kostnaður við skráningu iðgjalda væri, en sú skráning fer fram í gegnum Jóakim. Verð sem greitt var fyrir slíka þjónustu var á bilinu 70-80 milljónir á hverju ári.
Frá árinu 2013 hefur Init svo átt viðskipti við félag er nefnist Init-rekstur og tveir af þremur stjórnanmönnum beggja félaga eru þeir sömu. Svo virðist sem starfsemi Init-rekstrar sé enginn en þrátt fyrir það runnu 636 milljónir króna frá Init til Init-rekstrar á árunum 2015-2019.