Hjörvar Steinn hefur tekið forystuna

Hjörvar Steinn Grétarsson og Helgi Áss Grétarsson áttust við í …
Hjörvar Steinn Grétarsson og Helgi Áss Grétarsson áttust við í dag og fór Hjörvar með sigur af hólmi. Ljósmynd/Skáksamband Íslands

Hjörvar Steinn Grétarsson náði í dag forystunni á Íslandsmótinu í skák með mjög góðum sigri á Helga Áss Grétarssyni í áttundu og næstsíðustu umferð Íslandsmótsins í skák sem fram fer um þessar mundir.  

Jóhann Hjartarson, sem var með hálfs vinnings forskot fyrir umferðina, tapaði fyrir Braga Þorfinnssyni í skák sem sögð er hafa verið afar skemmtilegri og flókin.

Hjörvar hefur 6 vinninga en Jóhann hefur 5½ vinning.  Bragi er í 3.-4. sæti með 5 vinninga ásamt Guðmundi Kjartanssyni sem lagði Vigni Vatnar Stefánsson að velli í lengstu skák umferðarinnar.

Lokaumferðin hefst klukkan 15 á morgun og teflir þá Hjörvar við Sigurbjörn Björnsson, sem vann Hannes Hlífar Stefánsson, þrettánfaldan Íslandsmeistari í dag.  Jóhann teflir við Hannes og Bragi teflir við Vigni Vatnar.

Ef tveir eða fleiri keppendur verða jafnir í efsta sæti verður teflt til þrautar á laugardaginn með skemmri umhugsunartíma.

Sýnt er beint frá Íslandsmótinu í skák á skak.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert