Kópavogsbær birtir nú vísitölu sem sýnir framvindu bæjarins í innleiðingu Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Vísitalan mælir þróun á stöðu innleiðingar á þeim Heimsmarkmiðum sem Kópavogur hefur forgangsraðað en þau eru 15 af 17 alls, þar á meðal útrýming fátæktar og trygging jafnan aðgang bæjarbúa að góðri menntun.
Vísitalan er vistuð í upplýsingakerfi sem upplýsingatæknideild Kópavogs hefur þróað sérstaklega síðustu ár og ber nafnið Nightingale. Hægt er að nálgast vefsíðuna fyrir vísitöluna hér.Meðal þess sem hægt er að skoða í upplýsingakerfinu eru vísitölur sem varpa ljósi á stöðu mála í bænum. Vert er þó að taka fram að gögnin sem vísitalan er byggð á eru a.m.k. ársgömul og endurspegla ekki endilega stöðu mála í Kópavogi í dag.
„Heimsmarkmiðavísitala Kópavogs er áfangi í því mikilvæga starfi okkar hjá Kópavogi að innleiða Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem leiðarljós í okkar starfsemi samfélaginu til heilla. Með henni fáum við sýn á það hver staðan er í ákveðnum þáttum samfélagsins og munum leitast við að aðgerðir okkar leiði til jákvæðrar þróunar á næstu árum,“ er haft eftir Ármanni Kr. Ólafssyni, bæjarstjóra Kópavogs um verkefnið.