Kona sem starfaði sem landamæravörður var í dag dæmd í Hæstarétti til 100 þúsund króna sektargreiðslu fyrir að hafa misnotað stöðu sína og ítrekað flett upp upplýsingum um fyrrverandi maka sinn og aðra konu í gagnagrunni lögreglunnar, LÖKE. Með dóminum var niðurstaða Landsréttar staðfest.
Konan hóf störf sem landamæravörður á Keflavíkurflugvelli árið 2015. Vorið 2016 hófst rannsókn á uppflettingum hennar í kerfinu vegna ábendinga sem fram höfðu komið og var málinu í kjölfarið vísað til héraðssaksóknara. Viðurkenndi konan við skýrslugjöf að hafa ítrekað flett upp fólkinu þrátt fyrir að það tengdist ekki vinnunni. Sagði hún það aðeins hafa verið gert fyrir forvitnis sakir.
Segir í dómi Hæstaréttar að konan hafi misnotað stöðu sína sem opinber starfsmaður og hallað réttindum þeirra sem upplýsingaöflunin beindist að.
Konan hafði fyrst verið sakfelld í Héraðsdómi 30. nóvember 2017, en Landsréttur ómerkti síðar dóminn vegna meintra annmarka. Fór málið þá aftur til héraðsdóms, síðar Landsréttar og loks Hæstaréttar.