Mest átta loftför í einu yfir gosstöðvunum

Vinsælt hefur verið að fljúga yfir gosstöðvarnar í Geldingadölum.
Vinsælt hefur verið að fljúga yfir gosstöðvarnar í Geldingadölum. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Vikulegir fundir Isavia, flugrekenda og flugaðila eru haldnir þar sem farið er yfir stöðuna með tilliti til flugs yfir gosstöðvunum í Geldingadölum, að sögn Guðjóns Helgasonar, upplýsingafulltrúa Isavia. Að hámarki átta loftför mega hverju sinni vera innan gossvæðisins en mikil ásókn er að skoða eldgosið úr lofti.

Guðjón segir allt ferlið hafa gengið mjög vel hingað til.

Fram kemur á vef almannavarna að hámarkið, átta loftför, miðist við bestu sjónflugsskilyrði.

„Þegar flogið er í næsta nágrenni við eldstöðina þurfa flugmenn að tryggja sín á milli að fjöldi loftfara sé ekki meiri en svo að flugöryggi sé tryggt. Bent er einnig á mikilvægi þess að huga vel að annarri umferð þegar flogið er inn og út úr svæðinu. Aðskilnaður milli loftfara í sjónflugi innan svæðisins er á ábyrgð flugmanna,“ kemur einnig fram þar.

Samkvæmt tilmælum Samgöngustofu til flugmanna vegna flugs á svæðinu ættu þyrlur að forðast að fara upp fyrir 700 fet yfir jörðu. Flugvélar ættu að forðast að fara niður fyrir 800 fer yfir jörð og drónar mega ekki fara upp fyrir 120 metra yfir jörðu.

Einnig er bent á að þörf sé á tíðu rannsóknarflugi við eldstöðina. Það flug, í þágu almannavarna og vísinda, nýtur forgangs fram yfir annað flug.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert