Rugla saman tíðni blóðtappa og aukaverkunum

Um níu þúsund manns voru bólusettir við Covid-19 í Laugardalshöllinni …
Um níu þúsund manns voru bólusettir við Covid-19 í Laugardalshöllinni í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mikilvægt er að gaumgæfa öll gögn varðandi hugsanlegar afleiðingar af bólusetningum. Fólk hefur aftur á móti ruglað saman árlegum tilfellum blóðtappa hér á landi og fágætum aukaverkunum sem hafa greinst eftir bólusetningu með bóluefnum Janssen og AstraZeneca.

Þetta segir Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítalans, spurður út í fregn í morgun um 50 tilkynningar til Lyfjastofnunar varðandi mjög alvarlegar aukaverkanir í kjölfar bólusetningar við Covid-19. Af þeim eru 16 andlát og 9 vegna blóðtappa.

Um 500 tilfelli á ári hverju 

„Þegar ekki er Covid og ekki eru bólusetningar og lífið heldur áfram sinn vanagang þá er margt sem hendir fólk. Við höfum verið að meta fólk sem hefur verið að fá bólusetningar út af ýmiskonar vandkvæðum sem ætla mætti að væru í tengslum við bólusetningarnar en reynast síðan vera bara alls óskylt ástand,“ greinir Már frá.

Fólk á leið í bólusetningu við kórónuveirunni í Laugardalshöll.
Fólk á leið í bólusetningu við kórónuveirunni í Laugardalshöll. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hann bendir á að grunntíðni segamyndunar í blóði fólks á Íslandi sé um 10 greind tilfelli á viku, eða um 500 á ári hverju. Þess vegna segi það sig sjálft að líkurnar á því að einhver fari í bólusetningu og fái svo blóðsega á næstu dögum séu nokkrar.

„Síðan hefur fólk verið að rugla þessu saman við þessar alvarlegu en fágætu aukaverkanir sem hafa verið greindar sérstaklega eftir bólusetningu með Janssen og AstraZeneca, sem eru mjög sjaldgæfar á heimsvísu,“ segir Már og nefnir að þau tilfelli sem greindust í Noregi hafi verið mjög sérstök.

Már Kristjánsson.
Már Kristjánsson. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Ekki hægt að rekja til bólusetninga

„Það er gott fyrir okkar samfélag að hafa góðar stofnanir og árvökult heilbrigðisfólk sem tilkynnir um atburði sem kunna að tengjast bólusetningunni og ég held að við þurfum öll að fagna því,“ bætir hann við.

Hann tekur fram að dánarhlutfall fólks í kjölfar bólusetninga virðist ekki vera umfram vænt dauðsföll í þessum hópi, enda margir orðnir fullorðnir og afar veikir fyrir. Varðandi tilvikin sem hann hefur haft spurnir af hafa aðrar skýringar verið fyrir hendi en þær sem hægt sé að rekja til fágætra afleiðinga bólusetninga.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir var bólusettur með bóluefni AstraZeneca í gær.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir var bólusettur með bóluefni AstraZeneca í gær. mbl.is/Árni Sæberg

„Ef maður virðir allt þetta fyrir sér og horfir á þessi gögn í ljósi þeirrar þekkingar sem er á SARS-sýkingu Covid-sjúkdómsins er enginn vafi í mínum huga að bólusetningar er það sem við eigum að vera að gera, ég er mikill stuðningsmaður þess,“ segir Már en fagnar um leið árvekninni sem er til staðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert