Sá hundraðþúsundasti bólusettur

Mögulegt er að bólusetja mikinn fjölda fólks í Laugardalshöll samtímis.
Mögulegt er að bólusetja mikinn fjölda fólks í Laugardalshöll samtímis. mbl.is/Árni Sæberg

Bólusetning í Laugardalshöll hefur gengið vel í dag og er bólusetningu 5.000 manns þar í dag nú þegar lokið, að sögn Jórlaugar Heimisdóttur hjúkrunarfræðings. Bólusetja á 8.000 manns í höllinni í dag en bólusetning fer einnig fram víða um land í dag. 

Gera má ráð fyrir því að fjöldi bólusettra sé því kominn vel yfir 100.000 þar sem fjöldi bólusettra á landsvísu var 98.000 í gær. 

„Við boðuðum þá sem fæddir eru 1961 og eldri í dag en við erum búin að boða allan '62 árganginn og erum að fara að boða '63 árganginn,“ segir Jórlaug. 

Janssen tekið í notkun í borginni í næstu viku

„Það hefur gengið mjög vel og verið mjög góð mæting. Við erum glöð með þátttökuna,“ segir Sigríður Dóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, í samtali við mbl.is um stöðuna. 

Næst verður bólusett í Laugardalshöll á þriðjudag, þá er stefnt á að bólusetja 10.000 manns með bóluefni Pfizer. Á miðvikudag fá væntanlega 4.300 manns bóluefni Moderna og á fimmtudag er útlit fyrir að 4.000 manns fái bóluefni Janssen. Það hefur ekki verið notað í höfuðborginni fram að þessu svo um eins konar tímamót verður að ræða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert