„Það er óhætt að segja að snekkjan hafi vakið óskipta athygli,“ segir Pétur Ólafsson, hafnarstjóri Hafnasamlags Norðurlands, og bætir við: „Þetta er okkar gos.“
Seglsnekkjan A hefur undanfarnar rúmlega tvær vikur lónað utan við Akureyri, einkum við Krossanesvíkina en í byrjun vikunnar færði hún sig inn á Pollinn og lá undir Vaðlaheiðinni á móts við Akureyri.
Pétur segir alltaf gaman að hafa falleg fley á Pollinum og deilir þeirri skoðun eflaust með fjölmörgum öðrum bæjarbúum og nærsveitamönnum sem hafa verið duglegir að taka myndir af snekkjunni og pósta á samfélagsmiðlum. Snekkjan er aftur komin á „fornar slóðir“ við Krossanes, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Snekkjan A er í hópi þeirra stærstu í heimi og það er ástæða þess að hún hefur að mestu haldið sig norðan við bæinn, fyrirferðin er það mikil að ekki er loku fyrir það skotið að hún gæti truflað flugumferð. Snekkjan er 142 metra löng og möstrin, sem eru þrjú, ná um 100 metra hæð. Það eru einmitt þau sem hugsanlega gætu valdið flugvélum truflun.