Mikið hefur gengið á í svartþrastahreiðri Mosfellsdal þar sem svartþrastarfrú hefur barist við að koma upp ungum. Hún verpti fyrst í byrjun árs en þá voru eggin ófrjó. Stuttu síðar verpti hún eggjum sem tveir ungar klöktust úr en þeir drápust báðir. Nú virðist gæfan vera að aukast þar sem tveir ungar eru komnir í hreiðrið og braggast báðir vel.
Öll atburðarásin hefur átt sér stað við heimili Hreiðars Gunnlaugssonar sem sýnir beint frá hreiðrinu í streymi á YouTube.
„Hún byrjaði hreiðurgerð 5. janúar og verpti þá fjórum eggjum, því fyrsta 19. janúar og því fjórða 22. janúar. Þau reyndust öll ófrjó. Mér skilst að það sé vegna þess að karlinn sé ófrjór á veturna,“ segir Hreiðar í samtali við mbl.is. Er þetta í fyrsta sinn sem vitað er að fugl verpi svo snemma á Íslandi. „Hún er algjör hetja,“ segir Hreiðar.
„5. mars hóf hún gerð á öðru hreiðri á útiljósi við aðaldyr heimilisins en hætti við það sem betur fer því ónæðið er mikið þar og minna skjól. Hún verpti svo í gamla hreiðrið 11. mars og verpti þá þremur eggjum. Tveir ungar klöktust úr eggjunum þann 25. mars og lifðu ekki í sólarhring vegna þess að það kom stíf norðanátt og frost, þrastarfrúin fjarlægði dauðu ungana og sat á í sólarhring og fór svo. Þriðja eggið var ófrjótt.“
Þrastarfrúin lét ekki deigan síga eftir þessa sorgarsögu heldur verpti í þriðja sinn 3. apríl síðastliðinn. Fjórum dögum síðar voru eggin orðin fimm. 19. apríl klöktust tveir ungar út og dafna þeir vel.
„Ég var hræddur um að þeir myndu ekki lifa af fyrstu nóttina vegna kulda en þessir harðjaxlar höfðu það af, sem betur fer,“ segir Hreiðar.