Allir nema einn sem eru í sérfræðihópi fatlaðra barna um málefni þeirra hafa reynslu af því að vera lagðir í einelti. Þetta er algengt vandamál sem ekki er tekið nægilega föstum tökum, að þeirra mati, og ýta fordómar undir eineltið.
Börnin upplifa sig sem auðveld skotmörk gagnvart þeim sem sýna eineltistilburði og kalla eftir aukinni fræðslu um málefni fatlaðra.
Þetta kom fram á vorráðstefnu Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins sem hófst í morgun þar sem viðfangsefnið er „Börn með fatlanir - Viðhorf og valdefling“.
Sérfræðihópur fatlaðra barna fundaði átta sinnum frá desember 2018 til janúar 2019. Ráðgjafarmiðstöðin Sjónarhóll var samstarfsaðili og var verkefnið unnið í samvinnu við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands. Börnin höfðu fullt frelsi varðandi umræðuefnið og mótuðu þau tillögur sínar í lokin.
Salvör Nordal, umboðsmaður barna, sem greindi frá niðurstöðunum á vorráðstefnunni sagði upplýsingarnar um eineltið „mjög sláandi“ og að gera þyrfti frekari rannsóknir á þessum málum á meðal fatlaðra barna.
Börnin upplifa fordóma og skilningsleysi og segjast hafa orðið fyrir ýmsu aðkasti og „böggi“. Þau eru sammála um að fordómar séu víða í samfélaginu. Litið sé niður á fólk með örorku og það álitið letingjar og félagslegt vandamál.
Oft fá börnin óviðeigandi spurningar um líf sitt og skerðingar um atriði sem þeim finnst ekki koma fólki við, meðal annars varðandi ástarlífið. Börnin vilja aukna fræðslu um fordóma og að tekin verði skref til að vinna bug á fordómum gegn fötluðum og skaðlegum staðalímyndum.
Þau nefna einnig að kynferðisleg áreitni og annað ofbeldi eigi sér stað hvar sem er, m.a. í sérúrræðum fyrir fötluð börn og unglinga og vilja að lögregla og dómsvald taki ofbeldismálum af meiri alvöru. Erfitt getur verið að kæra ofbeldi, að þeirra sögn, og þurfa sumir aukinn stuðning til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.
Þeim er umhugað um að hlustað sé á fötluð börn og unglinga og vilja að þau fái aukin tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Mikilvægt er að foreldrar hlusti á börnin sín og skilji hvað þau vilja. „Það kom mjög skýrt fram að þau vilja fá miklu meiri tækifæri til að tjá skoðanir sínar og hafa áhrif,“ sagði Salvör á ráðstefnunni.
Hópurinn er sammála um að fötluð börn og unglingar ættu að fá að hafa meiri áhrif á stuðninginn sem þeim er úthlutaður í skóla. Að börn, foreldrar og kennarar taki ákvarðanir í sameiningu.
Einnig kalla börnin eftir fjölbreyttum lausnum í skólum og nefna að fólki áttar sig ekki alltaf á því að börn með fötlun þreytast oft fyrr en aðrir. Þau upplifa slæmt viðmót í skólanum og biðja um að starfsfólk sýni þeim meiri þolinmæði. Slæm líðan sé oft túlkuð sem óþekkt eða hegðunarvandamál. Kennarar skammi stundum fötluð börn þegar þeim líður illa.
Hópurinn upplifir hlutina þannig að þátttaka í skólaferðalögum og viðburðum sé skipulögð fyrir alla nemendur. Þau sem eru aftur á móti með fötlun hafi ekki tækifæri til þess vegna þess að húsnæðið sé óaðgengilegt eða dagskráin krefjist líkamlegrar þátttöku. Komist þau ekki með eru þau stundum látin mæta í skólann á meðan hinir nemendurnir eru í burtu í ferðalögum eða á viðburðum. Þetta sagði Salvör afar ósanngjarnt.
Börnin hafa öll lent í seinkunum eða mistökum hjá ferðaþjónustu fatlaðra og segja erfitt að treysta á hana. Þau segja lítið úrval af íþróttum og annarri tómstundaiðju í boði fyrir þau, sérstaklega þegar þau eldast. Bágt aðgengi að hreyfingu getur valdið vanlíðan og félagslegri einangrun. Minna er af íþróttum í boði fyrir börn með hreyfihömlun en þroskahömlun.
Börnin eru ánægð með liðveisluna sem þau fá og segja að hún hafi dregið úr félagslegri einangrun þeirra og stutt þau mikið. Þau segja samt erfitt að finna liðveislu í stað fólksins sem hættir. Það sé algengt vandamál.
Almennt séð eru börnin bjartsýn á framtíðina. Þau telja barneignir fatlaðs fólks vera viðkvæmt málefni og segja að lítið sé rætt um slíkt í skólum. Almenn fræðsla um kynlíf og barneignir miðist bara við ófatlað fólk. Þau segjast þekkja fáar fyrirmyndir þegar kemur að barneignum, þ.e. fatlaða feður eða fatlaðar mæður, og þetta fólk fái litla umfjöllun í fjölmiðlum.
Salvör sagðist í lok erindisins vonast til að niðurstaða hópsins eigi eftir að hafa raunveruleg áhrif úti í samfélaginu.