Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra tilkynnti fyrr í vikunni að stjórnvöld miðuðu við að afnema fjöldatakmarkanir innanlands í síðari hluta júní-mánaðar. Skipuleggjendur viðburða á Íslandi hafa tekið þessum fréttum vel og gera skipuleggjendur Þjóðhátíðar í Eyjum ráð fyrir því að halda útihátíðina í sumar. Ekki deila þó allir þessari bjartsýni Eyjamanna en meðal þeirra sem halda aftur af sér við skipulagningu viðburða eru hjónaefni Íslands.
„Fólk er mikið að halda að sér höndum. Við höfum verið með mjög fáar athafnir síðustu tvo mánuði, nánast teljandi á fingrum annarrar handar.“ Þetta segir Siggeir Ævarsson, framkvæmdarstjóri Siðmenntar. Hann telur að fólk vilji frekar halda stærri veislur þegar aðstæður leyfa.
Séra Hjörtur Magni Jóhannsson, safnaðarprestur hjá Fríkirkjunni í Reykjavík segir að mikið hafi verið um að hjónavígslum hafi verið frestað síðustu mánuði. Hins vegar er farið að fjölga bókunum hjá þeim fyrir hjónavígslum í sumar. „Þetta er fjölgun miðað við síðasta ár náttúrulega. Ég hef ekki borið saman hvort þetta sé að færast í sama horf eða aukast við það sem var venjulegt áður, mér þætti það ekki ósennilegt. Það hefur líka verið töluvert um hjónavígslur á lágu nótunum, þar sem eru bara örfáir viðstaddir. Síðan mun fólk þá fagna ekki endilega í kirkjunni, einhvertímann seinna og síðar.“
Hann er þó ekki viss um hvort að veisluhöld muni fara aftur í sama horf. „Ég held að það sé orðið lágstemmdara varðandi brúðkaupsveislur, skírnarveislur sem og erfidrykkjur. Það hefur orðrið fyrir vissum áhrifum og mun breytast líklegast til frambúðar, það verði lágstemmdara.“
Áætlun stjórnvalda um afnám fjöldatakmarkanna er háð bólusetningaráföngum sem þau hafa sett fyrir sér. Því er hætta á því að áætlanir Íslendinga, þar á meðal hjónavígslur þeirra, geta raskast ef treglega gengur að bólusetja þjóðina.